Vill úttekt á áhrifum núverandi kvótakerfis

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður sjávarútvegsnefndar, vill láta gera úttekt á áhrifum núverandi kvótakerfis á byggðir landsins, búsetu- og atvinnuþróun.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Ólínu, sem fjallar um hagfræðiúttekt á áhrifum kvótafrumvarps sjávarútvegsráðherra. Hún segir að úttektin hafi verið túlkuð á versta veg fyrir ráðherrann. Víst sé að skýrslan sé engin lofssöngur. 

„En áður en  allir ganga af hjörunum í yfirlýsingagleðinni held ég við ættum að kalla eftir einni skýrslu enn - samhengisins vegna,“ skrifar Ólína.

Hún segir að auk þess að gera úttekt á áhrifum kvótakerfisins á byggðir, búsetu- og atvinnuþróun þá verði jafnframt viðskipti og verðmyndun aflaheimilda skoðuð nánar,  „hve stór hluti af arðsemi greinarinnar hafi farið í áhættufjárfestingar utan greinar  þ.e. í annan atvinnurekstur (t.d. “tuskubúðirnar” við Laugaveginn). Við skulum fá metið í hagtölum, hvaða áhrif samþjöppun aflaheimilda og verðmætatilflutningur hefur haft á byggðir landsins og líf fólksins sem það byggir,“ skrifar hún

Þá segir hún að tveir hagfræðingar, tveir samfélagsfræðingar og einn lögfræðingur eigi að vera fengnir til verksins.

„Gefum þeim frest til 1. september að skila skýrslu, sem myndi þá liggja fyrir um svipað leyti og aðrar umsagnir sem von er á inn í þingnefndina sem nú hefur málið til meðferðar. Að fenginni þessari úttekt skulum við svo íhuga boðskap þeirrar hagfræðiúttektar sem nú liggur fyrir og markmið frumvarpsins,“ skrifar Ólína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert