Ísland á réttari leið eftir þjóðaratkvæðið?

 Töluverð breyting varð á afstöðu fólks til þess hvort Ísland væri almennt á réttri leið eða ekki í kjölfar þjóðaratkvæðisins í apríl síðastliðinn um síðustu Icesave-samningana. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Miðlun ehf. en fyrirtækið hefur spurt fólk mánaðarlega að undanförnu spurningarinnar: „Þegar þú tekur allt til greina, hvort myndir þú segja að Ísland væri að stefna í rétta átt eða að það væri að stefna í ranga átt?“

Niðurstöðurnar eru á þá leið að í febrúar töldu tæplega 40% aðspurðra að Ísland stefndi í rétta átt. Í mars versnaði mælingin en þá töldu rúmlega 30% Ísland á réttri leið.

„Í aprílmælingunni varð mikil breyting – aðeins mældist  7% munur á hópunum tveimur. Tæplega 47% landsmanna töldu Ísland á réttri leið. Aprílmælingin fór fram eftir Icesave kosningar, e.t.v. höfðu niðurstöður hennar áhrif á skoðanir landsmanna. Í nýjustu mælingunni sem fór fram á tímabilinu frá 27. maí til 5. júní síðastliðinn hafði þeim sem töldu að Ísland væri á réttri leið fækkað lítillega (46%),“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að marktækur munur hafi komið fram í mælingunni í maí eftir aldri og menntun þátttakenda. Þannig hafi aldurshópurinn 50 til 75 ára helst talið að Ísland væri á réttri leið sem og þeir sem eru með háskólapróf. Í báðum tilfellum um 57%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert