„Hurðinni skellt á okkur“

mbl.is / Ólafur Örn Nielsen

„Það virtist vera ágætis gangur í þessu í gær en svo allt í einu var hurðinni skellt á okkur og það var sama sagan í morgun,“ segir Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í samtali við mbl.is. Hann segir að þessi breyting hafi orðið í kjaraviðræðum flugmanna og Icelandair í kjölfar þeirra ummæla Katrínar Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, að til þess gæti komið að sett yrðu lög á kjaradeiluna.

Boðað yfirvinnubann flugmanna tók gildi klukkan tvö í gær og hafa sex flug á morgun og önnur sex á mánudaginn verið felld niður vegna þess. Nokkuð sem talið er að muni hafa áhrif á á annað þúsund farþega. Samtök ferðaþjónustunnar hafa harðlega gagnrýn yfirvinnubannið og sagt að það muni stórskaða ferðaþjónustuna.

„Við mætum í vinnuna okkar og mætum á varavaktirnar þannig að öll flug sem felld eru niður falla niður vegna þess að það er ekki til nægur mannskapur og það var aldrei til mannskapur í þessi flug,“ segir Kjartan. Hann segir að þau flug sem felld séu niður séu flug þar sem flugmenn hefðu þurft að sinna á frídögunum sínum.

Strandar á öllu

Kjartan segir aðspurður að í augnablikinu strandi kjaraviðræðurnar í raun á öllu. „Þegar allt fór í strand í gær var akkúrat verið að ræða þetta sveiflujöfnunarmál, það er að reyna að halda fleirum inni yfir veturinn, og það var búið að vera að velta á milli ýmsum hugmyndum og mörgum ágætum í þeim efnum. Svo allt í einu er allt ómögulegt.“

Aðspurður um framhaldið segir Kjartan að það sé óljóst enda enginn nýr fundur verið boðaður. „En ég held að sáttasemjara beri að boða fund með viku millibili þannig að við verðum bara að sjá hvað líður langt þar til hann boðar annan fund.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert