Orð Katrínar skiptu ekki máli

Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég tek undir með ríkissáttasemjara sem sagði í dag að umræðan í fjölmiðlum hafi ekki komið að borðinu," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hann hafnar því að ummæli Katrínar Júlíusdóttur, ráðherra ferðamála, hafi fengið samninganefnd flugfélagsins til þess að kippa að sér höndum í kjaradeilunni við Félag íslenskra atvinnuflugmanna.

Kjartan Jónsson, formaður FÍA, sagði í samtali við mbl.is í dag að hurðinni hefði verið skellt á samninganefnd flugmanna eftir að ummæli Katrínar voru höfð eftir henni í fjölmiðlum í gær. Hún lét í það skína að kannski yrðu sett lög gegn yfirvinnubanni flugmanna, ef það drægist á langinn og færi að valda ferðaþjónustunni skaða. Sagði Kjartan að gangur hefði verið í viðræðum þar til sú frétt barst. Þá hefði allt strandað.

Nokkuð ber í milli í frásögnum manna af viðræðunum, þar sem Kjartan sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að eftir að ummæli Katrínar fréttust hefðu samningamenn Icelandair hallað sér aftur í sætum sínum, rennt sér frá samningaborðinu og farið að bíða eftir því að þeir yrðu skornir niður úr snörunni.

Guðjón segir ekki rétt að Icelandair ætli að láta Katrínu standa við stóru orðin. „Að sjálfsögðu gerum við ekki ráð fyrir neinu öðru en að ná samningum. Við erum alveg harðir á að ljúka þessu með samningum og höfum fulla trú á að það takist," segir hann. Flugmönnum hafi verið boðnar sömu kjarabætur og öðrum.

Aðspurður hvort það sé ekki rétt að starfsöryggi flugmanna skipti jafnmiklu máli í viðræðunum eins og launaliðurinn segir Guðjón að fulltrúar Icelandair séu sammála flugmönnum og öðrum um að það sé mikil árstíðasveifla í þessum geira og það sé allra hagur að draga úr henni. „En það sem er að gerast í þessum samningum snýst fyrst og fremst um laun," segir Guðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert