Fangar sviku út fé

mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt tvo karlmenn í fimm og tveggja mánaða fangelsi fyrir fjársvik og hlutdeild í fjársvikum. Mennirnir eru báðir fangar á Litla Hrauni.

Mennirnir voru sakaðir um að hafa blekkt starfsmenn þjónustuvers Íslandsbanka í desember sl. og fengið þá til óheimilla úttekta í tvö skipti, eða 7. og 10. desember sl. Alls voru þetta 280.000 kr. 

Upphafsmaður málsins hringdi í þjónustuverið úr fangelsinu 7. desember og þóttist hann vera annar maður. Fanginn fékk starfsmann bankans til að millifæra 180.000 kr. af bankareikningi fórnarlambsins yfir á sinn reikning.

10. desember fékk upphafsmaðurinn annan fanga til að hringja í bankann og þykjast vera sami maður. Að þessu sinni voru millifærðar 100.000 kr. á reikning upphafsmannsins. Var hann þá áður búinn að hringja til að hækka yfirdráttarheimild á reikningi fórnarlambsins.

Málið var kært til lögreglu 13. desember. Fórnarlambið, sem er búsettur í þjónustuíbúð fyrir fatlaða, tilkynnti þá að allir peningar á bankareikningnum hefðu verið  millifærðir út af bankareikningi sínum hjá Íslandsbanka yfir á bankareikning fangans, sem var upphafsmaður málsins, sem er einnig hjá Íslandsbanka.

Sagðist hann hafa séð þann 10. desember að búið hefði verið að millifæra af reikningi sínum 280.000 kr. í tveimur færslum og auk þess að  yfirdráttarheimild var hækkuð um 100.000 kr. Hann sagðist hafa hringt í Íslandsbanka og fengið þær upplýsingar að millifærslurnar hefur verið gerðar í síma í tvígang og lagðar inn á reikning annars manns.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að upphæðirnar hefðu nánast strax verið teknar út af reikningi fangans, í annað skiptið í reiðufé en hitt skiptið með millifærslu yfir á reikning bróður fangans og þaðan tekin út í reiðufé.

Sá sem varð fyrir svikunum grunaði strax fangann um verknaðinn, en mennirnir þekktust. Hann segir að fanginn hafi ekki haft neitt leyfi til að taka út af reikningnum. Hann sagðist ekki skilja hvernig fanginn hefði komist yfir leyninúmer á reikningnum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. 

Sá sem hlaut fimm mánaða dóm var upphafsmaður að brotunum. Hann fékk hinn fangann til hlutdeildarinnar með nokkurri þvingun samkvæmt framburði beggja um það, að því er segir í dómi héraðsdóms.

Sá sem hlaut tveggja mánaða dóm hefur 13 sinnum áður verið sakfelldur fyrir refsiverðan verknað. Nær sakaferillinn aftur til ársins 1995. Síðast var hann dæmdur í desember sl. í 2 mánaða fangelsi og til að greiða 11 milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert