Flogið með finnskri vél til Korfu

Frá Grikklandi.
Frá Grikklandi. Ómar Óskarsson

Ferðaskrifstofan Vita hefur fengið vél frá Air Finnland til að sækja um 180 ferðamenn til grísku eyjarinnar Korfu annað kvöld. Fljúga átti með hópinn frá eyjunni í dag og náðist ekki vegna verkfalls flugumferðarstjóra í landinu.

Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri Vita, segir að verið sé að tilkynna farþegum þetta, en þeir munu gista áfram á hótelum sínum í nótt, á kostnað ferðaskrifstofunnar eins og venja er í tilfellum sem þessum.

Helgi segir að vegna ástandsins í Grikklandi og aðgerða flugmanna á Íslandi hafi þetta verið talin öruggasta leiðin til að leysa málið. Ekki var gjörlegt að fá vél frá Icelandair á þessum tíma annað kvöld.

Mun vélin frá Air Finnland lenda á Korfu um kl. 22 annað kvöld og fara þaðan með hópinn um klukkustund síðar. Áætlaður komutími til Keflavíkur er um eitt leytið aðra nótt.

Um 30 farþegar áttu bókað flug út til Korfu og fara þeir í fyrramálið með áætlunarflugi Icelandair til Helsinki, og þaðan áfram með leiguvél frá Air Finnland til Korfu.

Að sögn Helga var þetta síðasta flugið til Korfu í bili með hóp íslenskra ferðamanna. Næst verður boðið upp á ferðir þangað í haust og segir Helgi ekkert farið að bera á afbókunum í sólarferðir til Grikklands þrátt fyrir ástandið í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert