Örninn kominn til hafnar

Bandaríska skólaskipið USCGC Eagle WIX-327 er komið til hafnar í …
Bandaríska skólaskipið USCGC Eagle WIX-327 er komið til hafnar í Reykjavík mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Bandaríska skólaskipið USCGC Eagle WIX-327 er komið til hafnar  í Reykjavík. Íslenska landhelgisgæslan og sjóbjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sigldu á móts við skipið sem er á heimleið úr siglingu sem farin var í tilefni 75 ára afmælis þess.  Eagle heimsótti meðal annars Írland, England og Þýskaland og héðan heldur það til Halifax.

Eagles tilheyrir bandarísku strandgæslunni og US Coast Guards Academy sem er 4 ára heilsársskóli þar sem verðandi yfirmenn bandarísku strandgæslunnar hljóta menntun sína. Nemendur sigla hálft sumarið á Eagle og hálft sumarið á hefðbundum varðskipum, en á veturna stunda þeir háskólanám.

Skipið á að baki langa sögu, sem rekja má fyrst til Hamborgar árið 1936 þar sem það var smíðað af Blohm og Voss-skipasmíðastöðvum, ásamt tveimur systurskipum. Fyrst voru skipin notuð sem skólaskip fyrir þýska sjóherinn en í stríðinu voru þau notuð sem flutningaskip. Að stríðinu loknu voru þau tekin upp í stríðslaun.

Eitt skipanna sigldi til Rússlands en fórst nokkrum árum seinna, en hin tvö skipin eru enn notuð sem skólaskip. Annað skipið varð eign Brasilíu og var síðan selt til Portúgals. Þar er skipið notað sem skólaskip portúgalska flotans og heitir Sagres. Þriðja skipið, sem hét þá Horst Wessel en heitir nú Eagle eins og önnur skólaskip strandgæslunnar, sigldi til Connecticut, sem hefur verið heimahöfn skipsins.

Eagle er 100 metra langt seglskip og vegur um 1900 tonn. Eagle er barkur, sem er tegund af seglskipi sem er með þrjú möstur, tvö fremri eru með bæði þverseglum og langseglum en aftasta mastrið með langseglum.

Hannes Þ. Hafstein fyrrum framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands sigldi með Eagle árið 1949 þar sem hann hlaut tveggja ára starfsþjálfun á vegum bandarísku strandgæslunnar. Ásgrímur L. Ásgrímsson, núverandi yfirmaður stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og starfandi framkvæmdastjóri aðgerðasviðs sigldi með skipinu fjögur sumur 1983-1986 sem nemandi US Coast Guard Academy og útskrifaðist vorið 1987, á sama tíma og núverandi skipstjóri Eagle, Eric Jones. Hann segir frá því að á þessum fjórum sumrum hafi hann siglt með Eagle, meðal annars í Karabíska hafinu við austurströnd Bandaríkjanna og upp að Kanada. 1986 sigldi Hannes með Eagle upp Hudson-ána að frelsisstyttunni, en skipið leiddi þá flota alþjóðlegra skólaskipa.

Hann lýsir reynslunni m.a. sem skemmtilegri og að mikill liðsandi hafi einkennt áhöfnina. Fyrstu tvö sumrin sinna sjóliðsforingjaefnin hefðbundnum störfum áhafnar, en á seinni tveim sumrunum gegna nemendur störfum yfirmanna á skipinu, til dæmis stjórnun á áhöfn masturs, en hvert mastur hefur sína eigin áhöfn. Hannes og Ásgrímur hafa sagt að dvölin á Eagle hafi nýst vel í störfum þeirra hjá Slysavarnafélagi Íslands og Landhelgisgæslunni.

Árið 1942 týndu um þrjátíu sjóliðar lífi sínu í Faxaflóa þegar skipið USCGC Alexander Hamilton, úr flota bandarísku strandgæslunnar, varð fyrir árás þýsks kafbáts. Íslenskir fiskimenn náðu að bjarga fjölda manns úr áhöfninni.

Til að minnast þess mun Eagle sigla frá Reykjavík að Snæfellsnesi föstudaginn 1. júlí kl. 10 og leggja krans á sjóinn þar sem eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur hefur staðsett flak Alexanders Hamilton.

Eagle verður opið almenningi frá 13-19 í dag, á morgun miðvikudag frá 10-17 og á fimmtudaginn frá 10-19.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert