Hætti í vinnu til að hjóla um Ísland

Sonurinn Sho Scott á brúnni yfir Þjórsá í gær.
Sonurinn Sho Scott á brúnni yfir Þjórsá í gær.

Bandarísk fjölskylda hjólar nú um Ísland til þess að safna fé fyrir umhverfisverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Eiginmaðurinn Charles Scott hætti störfum hjá örgjörvaframleiðandanum Intel til að koma til Íslands og hjóla rúma 2.400 kílómetra.

Ferðalag Charles Scott og barnanna hans tveggja hófst á sunnudag. Þau hjóla á samtengdum hjólum um landið en eiginkona Scott ætlar að slást í hópinn á miðri leið. Börn þeirra eru tíu og fjögurra ára gömul.

Sumarið 2009 hjóluðu Scott og átta ára gamall sonur hans um Japan til þess að safna fé fyrir verkefni Sameinuðu þjóðanna, „Milljarður trjáa“. Þar eru ríkisstjórnir og einstaklinga hvattar til þess að setja sér markmið um gróðursetningu trjáa til þess að bæta umhverfið.

Þeir hjóluðu rúma fjögur þúsund kílómetra á 67 dögum og voru útnefndir „Loftslagshetjur“ af SÞ fyrir afrekið. Ferðin nú er í sama tilgangi og stendur SÞ við bakið á fjölskyldunni.

Í gærkvöldi hjólaði fjölskyldan um fimmtíu kílómetra leið frá Selfossi á Hvolsvöll þar sem hún gisti. Hún lætur sérstaklega vel af sundlaug bæjarins þar sem börnin fengu að njóta sín.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Scott-fjölskyldunnar á bloggsíðu hennar um ferðina og lesa um markmiðin á heimasíðu hennar.

Grein Charles Scott um ferðalagið á Huffington Post.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert