Aukin samþjöppun hefur jákvæð áhrif

Aukin samþjöppun í sjávarútvegi hefur haft jákvæð áhrif á rekstur og framlegð greinarinnar. Þetta sést einna helst þegar skuldastaða staða stærri sjávarútvegsfyrirtækja er skoðuð miðað við hin fyrirtækin í greininni. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Arion banka þar sem fjallað er um stöðu sjávarútvegsins á Íslandi.

„Hagkvæmni og velgengni í sjávarútvegi ræðst ekki aðeins af því hversu mikið auðlindin sjálf getur gefið af sér heldur einnig af fjármögnunarkostnaði sem er stærri fyrirtækjum fremur í hag.

Af þessu er ljóst að möguleiki er á talsverðri stærðarhagkvæmni í fiskveiðum – og vinnslu, en hagkvæmnin hefur þegar gert vart við sig. Aukin nýliðun í greininni, sem stóra kvótafrumvarpið á að stuðla að, myndi auka fjölda smærri útgerða og draga úr aflaheimildum þeirra sem stærri eru. Spurningin er hvort verið sé að gera væntum nýliðum í útgerð greiða eða grikk með nýrri skipan fiskveiða, en staða smærri útgerða er í dag ekki svo öfundsverð," segir meðal annars í Markaðspunktum Arion banka.

Mikil óvissa ríkir í sjávarútvegi um þessar mundir þar sem breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa verið boðaðar. Í byrjun júní voru fyrstu skrefin tekin þegar Alþingi samþykkti lög um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, eða hið sk. litla frumvarp. Stærra frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið, sem gæti falið í sér allsherjar umbreytingu á kerfinu, verður tekið fyrir á Alþingi í haust.

Ýmsar breytingar á kvótakerfinu hafa þó nú þegar tekið gildi með nýsamþykktum lögum (litla frumvarpinu). Þær snúa m.a. að aukningu á strandveiðikvóta og úthlutun heildaraflamarks, en sú breyting felur í sér að allir handhafar aflamarks (magn sem má veiða) eiga að standa undir því aflamarki sem varið er til strandveiðanna sem og til byggðakvóta og línuívilnunar (núverandi pottar).

Hér áður voru það eingöngu handhafar kvóta í viðkomandi tegund (oft þorskur eða ýsa) sem stóðu undir pottinum. Breytingarnar fela í sér að allir verða að leggja sitt að mörkum, óháð því hvaða fisktegund þeim er heimilt að veiða í dag.

„Í þessu felst augljós óhagræðing í greininni þar sem þeir sem veiða aðrar tegundir en pottarnir miðast við þurfa nú að selja frá sér hluta af öðrum afla, til að geta sett í pottinn.  Þá er einnig að finna breytingar á veiðigjaldinu en gjaldið mun síðan hækka enn frekar ef stóra frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd í haust," segir í Markaðspunktum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert