Skipstjórar Herjólfs fái vinnufrið

Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn.
Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn. mbl.is/RAX

Eimskipafélagið óskar eftir því við fjölmiðla og aðra að þeir láti af óvæginni gagnrýni sinni og að skipstjórar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs fái vinnufrið. Enginn annar hvati liggi  að baki þeirra ákvörðunum en sá að tryggja öryggi farþega, áhafnar og skips.

„Skipstjórnarmenn láta ekki undan þeim þrýstingi sem kemur frá utanaðkomandi aðilum heldur byggja ákvörðun sína á faglegu mati á aðstæðum til að tryggja öryggi farþega, áhafnar og skips," segir  í yfirlýsingu, sem Eimskip hefur sent frá sér.

„Allt tal um að Eimskipafélagið leggist gegn siglingum til Landeyjahafnar er alrangt. Herjólfur mun sigla  í Landeyjahöfn þegar aðstæður leyfa. Hafa þarf í huga að skipstjórnarmenn Herjólfs eru enn að viða að sér þekkingu og reynslu af Landeyjahöfn  til að átta sig á því við hvaða aðstæður hægt er að sigla. Miðað við reynsluna síðasta vetur er ekki ólíklegt að sigla þurfi til Þorlákshafnar hluta ársins," segir þar einnig.

Segist Eimskipafélagið telja mikilvægt, að sem fyrst verði settur á fót virkur starfshópur um siglingar í Landeyjahöfn skipaður sérfræðingum og skipstjórnarmönnum sem viði að sér upplýsingum um mannvirki, skip, veðurfar, sjólag og siglingar sem liggja fyrir og vinni úr þeim gögnum tillögur að lausn til að tryggja hámarksnýtingu Landeyjahafnar til skemmri og lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert