VG vill flugvöllinn burt

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Golli

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, tali út frá einhverjum öðrum sjónarmiðum en stefnu flokksins í Reykjavík þegar hann segir að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki færður svo lengi sem hann fái ráðið.  Segir hann að hugmyndir um að færa flugvöllinn á Hólmsheiði séu galnar.

„Undanfarin kjörtímabil höfum við í Vinstri grænum talað fyrir því að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni. Auðvitað þurfum við að gæta að umhverfismálum; það hlýtur að varða alla landsmenn að þétta byggð í Reykjavík ef litið er til umhverfissjónarmiða. Við verðum að koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu á einkabílanotkun. Ögmundur talar þarna gegn þessum umhverfissjónarmiðum sem við höfum haldið á lofti," sagði Sóley við  Morgunblaðið. 

„Við töluðum fyrir því að flugvöllurinn færi upp á Hólmsheiði en það kemur víst ekki til greina að hans hálfu. Við þurfum þá að skoða aðra kosti. Ögmundur er ekki í borgarstjórn, hann talar út frá einhverjum sjónarmiðum sem hann verður að skýra sjálfur,“ segir Sóley.

Í Morgunblaðinu í dag segir Ögmundur, að í burðarliðnum sé samkomulag við Reykjavíkurborg sem gangi út frá því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri um árabil. Sóley segist aldrei hafa séð þetta samkomulag og hún viti, að það sé mjög ríkur vilji af hálfu flestallra borgarfulltrúa að flugvöllurinn fari.

Ögmundur sagðist sannfærður um, að eina ástæðan fyrir hugmyndum um að færa flugvöllinn sé þrýstingur frá aðilum sem vilji reisa hús á flugvallarsvæðinu og braska með lóðir.

„Ég trúi því ekki að Ögmundur Jónasson, haldi að annarlegir hagsmunir liggi að baki hugmyndafræði Vinstri grænna í Reykjavík. Ég hef rökstutt ágætlega mína afstöðu og forvera minna í borgarstjórn Reykjavíkur og hann verður að svara því sjálfur hvort hann haldi það í alvörunni að flokkssystkini hans séu að ganga erinda lóðabraskara,“ segir Sóley Tómasdóttir.

Hætt við nýjan flugvöll á Hólmsheiði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert