Íslenskir heilbrigðisstarfsmenn flykkjast til Noregs

Íslenskir læknar og heilbrigðisstarfsmenn leita í sívaxandi mæli til Noregs.
Íslenskir læknar og heilbrigðisstarfsmenn leita í sívaxandi mæli til Noregs. Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjöldi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna sem sækja um heimild til að starfa í Noregi hefur sjöfaldast á tveimur árum. Árið 2008 sóttust 19 Íslendingar eftir slíku en í fyrra fengu 133 leyfi til að starfa þar. Norska blaðið ABC Nyheter segir frá þessu.

Á tveimur árum hefur fjöldi íslenskra lækna í Noregi farið úr sjö í 34 en ástandið fyrir Ísland sé enn verra þegar litið sé til hjúkrunarfræðinga. Aðeins fjórir íslenskir hjúkrunarfræðingar hafi óskað leyfis hjá norskum heilbrigðisyfirvöldin til að starfa í landinu en í fyrra voru þeir hins vegar sjötíu sem sóttu um og fengu leyfi.

Er haft eftir Jörgen Homboe, starfandi framkvæmdastjóra skrifstofu norska heilbrigðisráðuneytisins sem sér um að gefa út starfsleyfi til erlendra heilbrigðisstarfsmanna, að þekkt sé að ríkari lönd sogi til sín vinnuafl frá fátækari ríkjum. Það sé hins vegar áhugavert og óvenjulegt að slík tilfærsla vinnuafls eigi sér stað á milli Norðurlandanna.

Vitnað er til Birnu Jónsdóttur, formanns Læknafélags Íslands, um að þetta séu hræðilegar tölur. Það sé hins vegar ekki við Norðmenn að sakast heldur íslensku ríkisstjórnina sem beri ábyrgð á því að sjá landsmönnum fyrir læknisþjónustu.

Frétt ABC Nyheter um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert