Furða sig á framkomu bankans

Hótel Hamar.
Hótel Hamar. mbl.is/Golli

Rekstraraðilar Hótels Hamars í Borgarnesi furða sig á því að Arion banki hafi ekki getað veitt sér yfirdráttarheimild í þrjá daga, upp á 1,5 milljónir kr., um síðustu mánaðamót til að geta greitt hluta starfsmanna sinna laun.

Hjónin Hjörtur Árnason og Unnur Halldórsdóttir, sem reka Hótel Hamar, segja í samtali við mbl.is að þar sem stór greiðsla hafi ekki skilað sér á réttum tíma, hafi verið ljóst þann 28. júní sl. að þau þyrftu að brúa bilið uns greiðslur frá Visa bærust. Þær berist venjulega 2. hvers mánaðar, en þar sem 2. júlí hafi verið laugardagur þá var ljóst að það myndi dragast til mánudagsins 4. júlí.

Átti að sjá þetta fyrir

Hjörtur segist hafa sett sig í samband við útibúið í Borgarnesi, þar sem þau hjónin hafa verið í viðskiptum í 14 ár (áður hjá Sparisjóði Mýrarsýslu sem Arion banki tók yfir 2009). Þau svör hafi hins vegar borist að allir þrír yfirmenn útibúsins væru í sumarfríi á sama tíma. Hjörtur segist loks hafa náð sambandi við starfsmann sem sendi erindið til Reykjavíkur. Þar hafi lánanefnd farið yfir málið og svar borist. 

„Skilaboðin voru þau að ég hefði átt að sjá þetta fyrir. Það er að segja að reikningarnir sem ég var búinn að senda út væru ekki borgaðir á réttum tíma,“ segir Hjörtur sem undrast viðbrögðin. Þetta varð til þess að þau gátu ekki greitt hluta starfsmanna sinna laun á réttum tíma í fyrsta sinn, en þau eru með 18 starfsmenn í vinnu.

Hann segist vita til þess að önnur fyrirtæki á svæðinu hafi svipaða sögu að segja.

Hjörtur segir að það furðulega í þessu öllu saman sé að Landsel, eignarhaldsfélag Arion banka, eigi 70% í Hótel Hamar í kjölfar endurskipulagningar sem lauk í desember sl. Hjörtur og Unnur eiga svo 30% á móti bankanum, en þau hafa rekið hótelið í sex ár.

Ávallt gætt aðhalds í rekstri

„Í þessum hótelrekstri þá er býsna mikið að gera í júnímánuði. Mikil innkaup og töluverður launakostnaður. Og maður er búinn að senda út reikninga en þeir koma kannski ekki inn fyrr en í júlí. Þannig að maður er stundum peningalítill um þessi mánaðamót. Þá vantaði mig bara yfirdrátt í þrjá daga. Það var ekki eins og ég væri að biðja um varanlegan yfirdrátt. Eina og hálfa milljón í þrjá daga til að geta greitt launin,“ segir Hjörtur.

Hann bætir því við að á von hafi verið á fjögurra milljóna króna greiðslu frá Visa á mánudeginum.  „Þetta er okkar eini viðskiptabanki og þeir hafa öll þau yfirlit sem þeir vilja hafa. Það er ekki eins og við séum í vanskilum eða neinu slíku.“ Þau hafi ávallt gætt aðhalds í rekstri.

Aðspurður segir Hjörtur að allir starfsmenn fyrirtækisins séu búnir að fá launin sín greidd. Eftir sitji framkoma bankans, en hjónin segja að þeim sé stórlega misboðið.

Uppfært: Svör Arion banka vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert