Svipt forræði vegna vanrækslu

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. Ómar Óskarsson

Kona á fertugsaldri missti forræði tveggja dætra sinna fyrir Héraðsdómi Reykjaness tímabundið í dag vegna slæms aðbúnaðar, óöryggis, vanlíðunar og vanrækslu sem hefði hamlað þroska þeirra. Öll önnur úrræði þóttu fullreynd. Eldra barnið er á grunnskólaaldri, en það yngra er í leikskóla.

 Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að konan sé 36 ára gömul og fari ein með forsjá tveggja dætra sinna. Málið hafði verið til meðferðar hjá félagsmálayfirvöldum um nokkurt skeið. Konunni hafði boðist margvíslegur stuðningur, meðal annars uppeldisnámskeið og tilsjón á heimilið.

Börnin höfðu átt við margvíslega vanlíðan að stríða, eldra barnið hafði  reynt að skaða sig.  Í framhaldi af því hafði barnið verið í sálfræðimeðferð og fengið aðstoð við heimanám og fleira hjá tilsjónaraðila. Yngra barnið var hjá stuðningsfjölskyldu.

Í málskjölum segir að í október 2009 hafi ástandið á heimilinu verið orðið það alvarlegt að ákveðið hafi verið að neyðarvista stúlkurnar. Mikil óreiða og óþrifnaður hafi verið á heimilinu og konan sagðist eiga við þunglyndi að stríða. Í kjölfarið voru þær vistaðar á neyðarheimili.

Hrædd um að deyja

„Starfsmaður neyðarheimilisins, sem vistaði stúlkurnar á þessum tíma, hafi haft áhyggjur af því að K bæri of mikla ábyrgð heima hjá sér. K hafi meðal annars talað um að þær systur og móðir þeirra myndu deyja af því að þær ættu ekki peninga fyrir mat. Hún hafi  einnig sagt frá því að þær ættu að drekka mikið vatn fyrir matinn því þá þyrftu þær að borða minna. K hafi einnig haft áhyggjur af því að fuglarnir hennar myndu deyja því þeir fengu svo lítinn mat. Þá hafi K sagt frá því að hún væri áhyggjufull yfir því hvað hún ætti að segja við konurnar þegar hún færi á BUGL. Hún hafi sagt að móðir hennar hafi sagt sér að hún ætti að segja sér líða illa í skólanum en hið rétta væri að henni liði aðeins illa þegar hún væri heima hjá sér,“ segir í málsskjölum.

Konan gekkst undir foreldrahæfnismat í kjölfar þess að stúlkurnar voru þátttakendur í kynferðislegum leik. Þar kom í ljós að konan býr yfir takmarkaðri getu til að takast á við streitu og vandamál daglegs lífs. Tengslapróf sýndi að hún vildi vel í uppeldishlutverkinu en hafði takmarkaða færni við að setja mörk og halda uppi aga. Þá þóttu ýmis atriði benda til þess að konuna skorti nægilegan skilning á þörfum dætra sinna. Einnig kom fram að hún misnotaði og vanrækti stúlkurnar tilfinningarlega og þær beri þess merki að vera vanræktar. 

Stuðningur án árangurs

Konunni var í kjölfarið veittur margþættur stuðningur, með þéttri tilsjón inn á heimilið, heimaþjónustu og heimaþrifum, sem skilaði litlum árangri.

Börnin verða vistuð utan heimilis í tólf mánuði og talið er að þannig sé hagsmunum þeirra best borgið.

Vörn konunnar byggðist á því að sóknaraðili hafi farið offari varðandi aðgerðir gagnvart sér og dætrum sínum síðustu mánuði og hafi ekki þurft að grípa til þeirra róttæku aðgerða sem gert hafi verið.  Hún telur ennfremur að krafa sóknaraðila brjóti í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um friðhelgi fjölskyldu og heimilis, og segir að opinberum stjórnvöldum beri að stuðla að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim.

„Nauðsynlegt sé að veita stúlkunum tækifæri til að dafna og þroskast við viðunandi uppeldisskilyrði,“ segir í úrskurði.

          



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert