Villtist snemma á leiðinni

mbl.is/Kristján

Verið er að hlúa að manninum sem leitað var að í dag og fannst við Steinsholtsá norðan við Eyjafjallajökul nú í kvöld. Hann er nú með björgunarsveitarmönnum í Vík í Mýrdal en verður fljótlega fluttur til Reykjavíkur þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu virðist sem að göngumaðurinn hafi farið út af gönguleiðinni fljótlega eftir að hann lagði af stað frá skálanum á Fimmvörðuhálsi og tekið ranga stefnu.

Leitarmenn fundu bakpoka mannsins við Kirkju í Eyjafjallajökli fyrr í kvöld en þar hafði maðurinn verið staðsettur frá því að hann lét vita af sér um nóttina og fram til kl. 16 í dag. Þar hafði hann gengið um og reynt að halda á sér hita en hann var ágætlega útbúinn og með nesti meðferðis.

Um fjögurleytið í dag ákvað maðurinn að skilja bakpokann eftir og ganga niður að Steinsholtsá, þar sem hann fannst nú í kvöld.

Ljóst er að maðurinn hefur gengið langa leið en hann hafði verið á göngu í rúman sólarhring þegar hann fannst og var þrekaður eftir gönguna. Sé miðað við beina leið frá skálanum er um að ræða 10 til 12 kílómetra en þar að auki hafði maðurinn gengið um til að halda á sér hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert