Höfnin ekki hönnuð fyrir Herjólf

Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn
Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn mbl.is/RAX

Í næstu viku verður ár liðið frá opnun Landeyjahafnar. Nú er ljóst að miklar frátafir hafa orðið á ferðum Herjólfs og höfnin hefur því ekki staðið undir þeim væntingum sem menn höfðu í upphafi.

Til dæmis var ekkert siglt til Landeyjahafnar frá febrúar til og með apríl.

Siglingastofnun segir niðurfellingar ferða Herjólfs til Landeyjahafnar tilkomnar vegna dýpis og erfiðleika við siglingar fyrir utan höfnina. Í fyrsta lagi hafi höfnin verið hönnuð fyrir grunnristari ferju en Herjólf og í öðru lagi hafi gosinu í Eyjafjallajökli fylgt mikið hlaup í Markarfljót sem flutt hafi milljónir rúmmetra af sandi og ösku. Þá hafi þrálátar austlægar ölduáttir flutt efnið fyrir höfnina. Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnarsviðs Siglingastofnunar, segir að alltaf hafi verið gert ráð fyrir að dæla þyrfti úr höfninni.

Síðan Landeyjahöfn var opnuð 20. júlí í fyrra hefur Herjólfur farið samtals 757 ferðir í Landeyjahöfn. Ekki hefur alltaf verið hægt að sigla þangað og því hefur Herjólfur farið 336 ferðir til Þorlákshafnar.

Það tekur Herjólf rúman hálftíma að sigla milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Hins vegar tekur um þrjá klukkutíma að sigla milli Þorlákshafnar og Eyja og það sem af er ári hafa fleiri ferðast með Herjólfi heldur en gerðist á heilu ári þegar einungis var siglt til Þorlákshafnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert