Íslensku listaverki stolið

Ljósmynd/Steinunn

Listaverkinu Voyage eða För, sem staðsett er í Hull í Bretlandi og er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur var stolið í nótt.

Verkið var gert til minningar um breska sjómenn á Íslandsmiðum og var afhjúpað árið 2006. Hinn hluti verksins er staðsett í Vík í Mýrdal, en verkið För var hugsað sem eitt verk í tveimur löndum, að sögn listamannsins.

Þeim hluta verksins sem stolið var í gær er  bronsfígúra, sem hallar á haf út, á fjögurra metra hárri stuðlabergssúlu. Verkið stendur við höfnina í Hull og er um 300 kíló og sex metrar á hæð í heildina. 

Í fréttatilkynningu sem borgarstjórinn í Hull sendi frá sér, segir að styttunni hafi verið stolið á milli ellefu og tólf í gærkvöldi. Þar segir enn fremur að fimm menn hafi sést fjarlægja styttuna á öryggismyndavélum.

Steinunn segist hafa verið vakin í nótt þar sem hún hafi verið beðin um nákvæma lýsingu á styttunni. Í framhaldi hafi hún fengið bréf frá borgarstjóranum í Hull þar sem hann segir að það líti allt út fyrir það að verkinu hafi verið stolið. „Þetta kom mér verulega á óvart, það er ekkert einfalt mál að fjarlægja 300 kílóa styttu. Ég vona að verkið finnist sem fyrst,“ segir Steinunn og bætir við að henni finnist það hálf ótrúlegt að nokkur láti sér detta svona lagað í hug. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert