Ekki stuðlað að ofbeldi

Auglýsingin utan á versluninni Choke. Á ensku stendur þar „Beating …
Auglýsingin utan á versluninni Choke. Á ensku stendur þar „Beating people up is a positive thing“. Eggert Jóhannesson

Margir hafa tekið eftir auglýsingu á horni Háaleitisbrautar og Ármúla þar sem maður sést reiða til höggs gegn liggjandi manni undir slagorðinu „Það er jákvætt að berja fólk“ [e. Beating people up is a positive thing]. Eigandi verslunarinnar Choke segir marga hafa misskilið setninguna sem sé tilvitnun í frægan bardagaíþróttamann en ekki hvatning til ofbeldis.

„Þetta er tilvitnun í Tank Abbott, einn af upphaflegu MMA-köppunum eða blönduðum bardagaíþróttum sem Árni Ísaksson og Gunnar Nelson hafa verið að gera það gott í úti í heimi,“ segir Sigurgísli Melberg Pálsson, eigandi verslunarinnar Choke sem selur ýmsar vörur tengdar bardagaíþróttum.

Á myndinni sést bardagaíþróttamaðurinn Allistar Overeem sem er á samningi hjá vöruframleiðandanum Hayabusa sem er umsvifamikill í þessum bransa.

Sigurgísli segir nokkuð hafa borið á því að eldra fólk misskilji slagorðið og telji að verið sé að stuðla að ofbeldi. Það sé langt því frá rétt og ekkert sér athugavert við auglýsinguna.

„Fólk slæst í hringnum, ekki utan hans. Setningin er tvíræð. Fólk getur túlkað þetta í báðar áttir en þetta er vísun í Abbott. Þetta er vísun í mann sem á fulla virðingu skilið sem upprunalegur meðlimur í MMA,“ segir Sigurgísli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert