Kisi Magnússon veiddi mink

Kisi sést hér með fenginn. Ekki mun það vera algengt …
Kisi sést hér með fenginn. Ekki mun það vera algengt að kettir veiði minka. Smári Ólason

Kötturinn Kisi Magnússon býr í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum hjá þeim Þórði Tómassyni, Guðrúnu systur hans og Magnúsi Tómassyni eiginmanni hennar.

Kisi er að sögn kunnugra mjög duglegur veiðiköttur og sér um að halda músastofninum í algjöru lágmarki á staðnum. Þegar hann veiðir mús kemur hann oft með hana inn að rúminu hjá Guðrúnu og gefur frá sér mjög sérkennileg hljóð til að vekja eftirtekt hennar á þessari gjöf sinni og stundum kemur hann með tvær í einu.

Aðfaranótt laugardagsins kom hann þó með all óvæntan feng. Þegar Guðrún vaknaði var Kisi með mink í andarslitrunum við rúmið og gaf hann upp andann rétt seinna. Kisi hafði greinilega óvenjulegan áhuga á þessum nýjasta feng sínum og ýtti nokkrum sinnum við honum með loppunni um morguninn.

Áhuginn var ekki mjög mikill eftir því sem á daginn leið en þó náðist mynd af honum þar sem hann virðir fyrir sér bráð sína. Líklega gerist það ekki oft að kettir ráði við mink, en þess ber að geta að dýrið var ekki alveg fullvaxið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert