Kaldasti júlí í Reykjavík frá 2006

Þótt hlýtt hafi verið í Reykjavík í júlí er þetta …
Þótt hlýtt hafi verið í Reykjavík í júlí er þetta þó kaldasti júlímánuður frá árinu 2006. mbl.is/Ómar

Hiti var yfir meðallagi um nær allt land í júlí. Kaldast var við Austfirði og austast á Suðausturlandi en hlýjast á Vestfjörðum. Þurrt var um landið norðanvert.

Fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar yfir tíðarfar í júlí, að meðalhiti í Reykjavík var 12,2 stig í mánuðinum, 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. En þótt þessi júlímánuður sé sá 14. hlýasti frá því samfelldar mælingar hófust 1871 sé hann sá kaldasti frá árinu 2006.

Meðalhiti á Akureyri var 12 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi. Tuttugu og fjórir júlímánuðir hafa verið hlýrri á Akureyri frá því að samfelldar mælingar hófust þar haustið 1881.

Á Höfn i Hornafirði var meðalhitinn 10,3 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi og meðalhiti á Hveravöllum var 8,5 stig, 1,5 stigum yfir meðallagi.

Meðalhiti í júlí var hæstur á sjálfvirku stöðinni á Þyrli í Hvalfirði, 12,6 stig, næsthæstur var hann á Hafnarmelum. Lægstur var mánaðarmeðalhitinn á Brúarjökli, 3,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Kambanesi 7,7 stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 24,8 stig á Húsavík þann 27. Á mönnuðum stöðvum varð hiti hæstur 22,4 stig á Mánarbakka þann 2.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Gagnheiði  þann 10., -3,1 stig. Lægstur hiti í byggð mældist sama dag á sjálfvirku stöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal, -1,7 stig. Lægstur á hiti mannaðri stöð mældist í Miðfjarðarnesi þ. 11., -1,2 stig.

Tíðarfar í júlí 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert