„Mjög alvarlegt mál“

Iceland Express.
Iceland Express. mbl.is

14 ára stúlka fékk ekki að fara heim eftir að flug 16. júlí frá Basel til Keflavíkur hafði seinkað um 10 klukkutíma og þar að auki verið ofbókað. Ósamræmi var í svörum starfsmanna flugvallarins og hún var heppin að fá næturgistingu hjá vinafólki.

Í tilefni af frétt sem birtist  á mbl.is um afleiðingar yfirbókana hjá Iceland Express hafa fleiri haft samband við Morgunblaðið.

„Mér finnst mjög alvarlegt að þetta hafi komið upp. Að geta ekki treyst að þegar þú kaupir flugmiða, að þú fáir að fara aftur heim, sérstaklega þegar um barn er að ræða,“segir Jónína Ósk Ingólfsdóttir móðir stúlkunnar.

14 ára dóttir Jónínu hafði keypt miða hjá Iceland Express frá Basel til Keflavíkur þann 16. júlí síðastliðinn. 

Þann dag hafði vél frá Iceland Express verið kyrrsett í París og þurfti félagið að senda aðra vél til Sviss sem var  minni og því hafi ekki verið pláss fyrir alla. 

Móðir stúlkunnar segist ekki vera viss um hvort að leitað hafi verið að sjálfboðaliðum til að breyta ferðum sínum eða ekki.

Hins vegar fékk stúlkan fyrst þau skilaboð að hún gæti ekki farið með vélinni, svo að hún gæti farið með,  og að lokum var henni sagt að hún gæti ekki farið með. 

„Hún var heppin að fá gistingu hjá vinafólki því að ekki hefði mátt bóka hana inná hótel þar sem hún er bara 14 ára, ég veit ekki hvað hefði gerst því þeir máttu ekki heldur senda hana eina í tengiflug, “ segir Jónína móðir stúlkunnar. 

„Þeir voru náttúrulega bara í vandræðum því að það var ekkert hægt að gera við stúlkuna, hún var bara heppin að vera með fólki sem tók hana bara heim aftur,“segir Jónína. 

Þar sem stúlkan var aðeins 14 ára mátti ekki bóka hana inná hótel til þess að reyna að fá tengiflug daginn eftir en beint flug frá Basel til Keflavíkur með Icelanda Express er aðeins vikulegt. 

Það að auki þurfti að finna stúlkunni fylgd því að hún mátti ekki fara ein síns liðs í tengiflug.

Starfsmenn Iceland Express gátu ekki leyst málið.

Málið leystist með þeim hætti að stúlkan fékk að gista hjá vinafólki sínu í Basel sem síðar tókst að finna henni fylgd með ókunnugum íslenskum manni sem átti bókað flug frá Zurich til Kaupmannahafnar með Swiss Air daginn eftir. 

Fylgdi maðurinn henni frá Zurich til Kaupmannahafnar og svo frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur með Icelandair. 

Stúlkan komst því heim til sín á miðnætti 17. júlí.

„Ef hún hefði ekki verið með neinum þá hefði 14 ára gamalt barn verið fast  á flugvellinum,“ segir Jónína.

„Á tímabili leit út fyrir að hún kæmist ekki heim fyrr en viku seinna,“segir Jónína.

Bæði fjölskylda stúlkunnar og fjölskyldan sem aðstoðaði erlendis fengu skaðabætur í formi flugmiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert