Áin hreif bílinn með sér

Björgunarsveitarmenn fóru á vettvang.
Björgunarsveitarmenn fóru á vettvang. mbl.is/Ernir

Fyrr í dag lentu erlendir ferðamenn í hættu í Skyndidalsá, sem rennur í Jökulsá í Lóni, þegar þeir óku í ána á röngum stað þannig að hún reif bíl þeirra með sér og bar hann um 50 metra niður með straumnum.

Um var að ræða svissnesk hjón sem voru á leið í Lónsöræfi. Þegar bíllinn stöðvaðist í ánni komu þau sér upp á þak bílsins og náðu að hringja eftir aðstoð þrátt fyrir að símasamband sé afar stopult á svæðinu. Hringdu þau í lögregluna í Sviss sem lét Neyðarlínuna vita. Gátu þau sagt númer vegarins sem þau óku (F980) og að þau væru stödd í á. Dugði það til að Björgunarfélag Hornafjarðar, sem var samstundis kallað út, gat komið fólkinu til aðstoðar ekki svo löngu síðar.

Svissnesku hjónunum var snarlega bjargað af þaki bílsins. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að ekkert ami að þeim. Veður hafi verið gott á staðnum, sólskin og blíða. Bíllinn, sem er bílaleigubíll, var svo dreginn úr ánni en hann er mikið skemmdur, jafnvel ónýtur, enda flæddi alveg upp undir þak á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert