Virðisaukaskattshækkun á mat?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Ernir Eyjólfsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og þingmaður hans, segir á bloggsíðu sinni að hann hafi fengið það staðfest eftir mjög áreiðanlegum heimildum að hækkun virðisaukaskatts á matvæli sé til umræðu innan ríkisstjórnarinnar.

„Það eru skelfilegar fréttir,“ segir Sigmundur Davíð á bloggi sínu. „Almennur virðisaukaskattur er nú þegar sá hæsti í heiminum á Íslandi og skattar á almenning eru fyrir löngu komnir yfir þolmörk heimilanna.“

Hann segir það sannað að skattahækkanir á matvæli komi verst við þá sem lægst hafa launin. 

„Þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður á sínum tíma skipti það mjög miklu máli fyrir fjárhag heimilanna. Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki. Þetta er rangt og þetta verður að stöðva. Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær.“

„Haldi þetta áfram verður enn erfiðara að snúa við blaðinu og rétta við ríkisfjármálin og byggja upp velferðarsamfélagið á ný. Meiri skattahækkanir eru ekki lausn heldur vandamál,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert