Leigan hækkar og hækkar

Næturþoka í Kópavogi
Næturþoka í Kópavogi mbl.is/Ómar Óskarsson

„Eftirspurnin er töluvert mikið meiri en framboðið. Það koma íbúðir á skrá hjá okkur sem eru jafnvel farnar samdægurs. Leigusalar virðast sumir nýta sér eftirspurnina og leiguverð hækkar í takt við það,“ segir Herdís Brynjarsdóttir, starfsmaður hjá leigumiðluninni Leigulistanum, aðspurð um stöðu leigumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu.

„Viðmiðunarverð fyrir fjögurra herbergja íbúð á fyrstu þremur mánuðum ársins var 1.362 krónur á fermetra. Er þá miðað við 104 fermetra íbúð. Síðan hefur eftirspurnin aukist. Sé listinn yfir framboðið skoðaður í dag er lægsta verðið á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjögurra herbergja íbúð 130.000 krónur fyrir 95 fermetra íbúð. Annað dæmi er að 86 fermetra íbúð í Kópavogi er á 150.000 krónur, sem er langt í frá hæsta leiguverðið, en það er þá komið í 1.744 kr. á fermetra. Þriðja dæmið er 70 fermetra íbúð í Hlíðahverfinu í Reykjavík, en leigan er 150.000 krónur, eða ríflega 2.000 kr. á hvern fermetra. Leiguverðið í dag er það hæsta sem ég hef séð.“

Leiga og húsnæðislán

– Er þetta því ný staða á leigumarkaðnum á Íslandi?

„Já. Leigan virðist komin langt yfir afborganir húsnæðislána. Þetta tvennt virðist því oft ekki í samhengi.“

– Þannig að þeir sem eru að leigja út eru að maka krókinn?

„Já, jafnvel. Ég veit dæmi þess að fjögurra herbergja, um það bil 80 fermetra íbúð, í 101 Reykjavík, sé boðin á 180.000 krónur. Í sama borgarhluta vill fólk fá upp undir 75.000 krónur á mánuði fyrir 20 fermetra stúdíóíbúð. Fermetraverðið er komið upp undir 3.000 krónur á stúdíóíbúðum og tveggja herbergja íbúðum í sumum tilfellum. Margir vilja þó vera sanngjarnir um verð og hafa þannig meira val um góða leigjendur og losna um leið við slit á íbúðum vegna leigjendaveltu.“

Herdís segir leiguna mörgum þungur baggi. „Margir eiga í ströggli vegna hækkandi leiguverðs. Fólk hringir til okkar áður en það skráir sig sem áskrifendur og spyr um stærð og staðsetningu á húsnæði í boði. Það verður ítrekað fyrir vonbrigðum þegar það heyrir tölurnar og kemst að því að þær eru ekki í þeirra verðflokki. Það er mjög erfitt fyrir einstaklinga að leigja nema þeir taki sig saman. Það er oft varla fyrir leigjendur að leigja einir og sér,“ segir Herdís Brynjarsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert