Utanvegaakstur með ólíkindum

Ekið upp árfarveg.
Ekið upp árfarveg. Mynd tekin af youtube

„Það er með ólíkindum hvernig menn hegða sér. Menn tala um að vandamálið sé að minnka en menn fela þetta bara betur," segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri hjá Landgræðslu ríkisins um myndbönd af akstri utanvega. Stærsta málið sé að búa til landakort sem sýnir hvar má aka.

Gerð slíks korts hefur tafist mjög en vonast er til að það verði tilbúið á næsta ári.

Veldur skemmdum og er til mikilla lýta

Á myndbandi sem birtist með þessari frétt má sjá akstur mótorhjólamanna utan vega og afleiðingar af utanvegaakstri jeppamanna. Einnig af ferðamönnum sem voru strangt til tekið ekki utan vega en ollu engu að síður skemmdum með ógætilegum akstri. Myndböndin má finna með lítilli fyrirhöfn á netinu, t.d. á youtube-vefnum.

Ekki þarf að fjölyrða um þau skaðlegu áhrif sem utanvegaakstur getur haft á gróður. Andrés bendir á að þótt ekið sé um gróðurlausar auðnir geti ummerki eftir utanvegaakstur sést lengi. Jafnvel þótt ekið sé á fáförnum slóðum spilli aksturinn ásýnd landsins. Þá megi heldur ekki gleyma því að utanvegaakstur sé skýrt lögbrot.

Á myndböndum sem finna má á vefnum, m.a. hér og hér, sjást torfæruhjólamenn aka upp árfarvegi sem aldrei hafa verið hluti af vegakerfinu. Á einu myndbandi, sem sjá má hér, má sjá hjólatúr í Bakkafjöru. Andrés segir að þetta sé landgræðslusvæði í einkaeigu en í umsjón Landgræðslunnar. Þarna hafi verið farið án heimildir og um lögbrot sé að ræða.

Of margir drullusokkar

Andrés segir óskaplega erfitt að meta hvort dregið hafi úr utanvegaakstri. Um tíma hafi virst sem dregið hefði úr vandamálinu á Reykjanesskaganum en nú virtist sem það hefði aukist á nýjan leik. Fyrir nokkru hafi sjálfboðaliðar lagt á sig mikla vinnu til að loka tilteknum slóða við Djúpavatnsleið en í fyrra hefði komið í ljós að sú lokun var ekki lengur virt. Greinilegt væri að jeppum hefði verið ekið þar um.  Víða væri við þennan vanda að glíma, lokanir væru ekki virtar. „Það eru of margir drullusokkar á ferðinni sem ekki virða viðkvæma náttúru landsins,“ segir hann.

Andrés segir að ákveðinn hópur, vonandi mjög lítill, stæði í baráttu fyrir að halda opnum gömlum slóðum, jafnvel þótt þessir slóðar hefðu myndast með utanvegaakstri, með því að skeyta í engu um lokanir.  Þá væri umhverfisvitund hluta Íslendinga ekki með þeim hætti sem æskilegt væri.

Illa merktir slóðar

Það er þó ekki bara vísvitandi akstur utan vega sem veldur skemmdum. Víða hafa orðið miklar skemmdir þegar ferðamenn festast á vegum sem geta ekki borið farartækin eins og þessar myndir af bifreiðum erlendra ferðamanna bera með sér. Oftast stafar þetta af kunnáttuleysi og hafa verður í huga að vegir á hálendinu er lítið merktir og mikið af þeim er fyrir utan hið opinbera vegakerfi Vegagerðarinnar.

Torfærur merktar eins og vegir fyrir fólksbíla 

Vegirnir þurfa hins vegar ekki að vera opinberir til að sjást á kortum og það eru meira að segja dæmi um að leið hafi verið ekin einu sinni og umsvifalaust skellt inn á landakort. Merkingar á landakortum gefa sjaldnast til kynna að leiðir sé sérstaklega torfærar heldur þurfa menn oft að vera staðkunnugir en slíkar kröfur er vart hægt að gera til erlendra ferðamanna. Þannig eru merkingar á illfærum slóðum sem eru í raun aðeins fyrir breytta jeppa nákvæmlega eins og merkingar á fjallvegum sem eru færir fólksbílum. Því er ef til vill ekki að furða þótt ferðamenn komist stundum í hann krappann.

Ók Land Rover inn Bleiksmýrardrög

Landrover sem sést á myndinni var ekið af þýskri konu sem var ein á ferð norður Sprengisand. Einhverra hluta vegna beygði hún inn á slóða sem liggur norður í Bleiksmýrardrög. Þetta er slóði sem bændur nota í göngum og er rétt sjáanlegur, engin skilti eru við slóðann. Bíllinn festist í sandbleytu eftir ca 20 km. Hún náði sem betur fer að hringja í 112 en það tók Hálendisvakt Landsbjargar talverðan tíma að finna hana áður en aðgerðir gátu hafist. Alls tók björgunaraðgerðin yfir 12 tíma.

Var á hjáleið og festi sig

Reynsla annars þýsks ferðamanns sem festi gríðarstóran MAN-trukk sinn skammt frá Hagavatni er um margt lýsandi fyrir ástandið á hálendinu. Hann var að fylgja hjáleið sem hafði myndast þar sem línuvegur sem liggur meðfram hlíð Skjaldbreiðar er nánast ófær. Nýja hjáleiðin þoldi ekki þunga bílsins og hann sökk.  Ætli það myndist kannski ný hjáleið innan tíðar?

Tólf tíma tók að losa bílinn.
Tólf tíma tók að losa bílinn. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Hálendisvakt Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirð laga för eftir utanvega akstur …
Hálendisvakt Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirð laga för eftir utanvega akstur og loka fyrir með steinum ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Risatrukkur ferðamanns fastur skammt frá Hagavatni fyrir helgi.
Risatrukkur ferðamanns fastur skammt frá Hagavatni fyrir helgi. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert