Pústrar, hrindingar og högg

mbl.is/Hjörtur

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og var tilkynnt um sjö líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur. Engin þeirra var alvarleg, „meira og minna pústrar, hrindingar og högg,“ að sögn lögreglu.

Flestar þeirra áttu sér stað frá klukkan tvö í nótt og fram að klukkan sjö, en þá var enn töluvert af fólki í miðborginni.

Maður sagðist hafa verið laminn í Austurstræti og annar var rotaður eftir slagsmál í Bankastræti. Þá var maður á ferli á Ingólfstorgi þegar annar kom aðvífandi og kýldi hann í andlitið þannig að hann féll við og rotaðist. Hann var fluttur á slysadeild.

Dyravörður Hressingarskálans í Austurstræti var laminn um fjögur leytið þegar upp kom ágreiningur við einn af gestum staðarins og fór hann sjálfur á slysadeild.

Rétt fyrir klukkan sex í morgun var tilkynnt um að maður af erlendum uppruna hefði  lamið þrjá menn á Lækjartorgi og um svipað leyti var maður sleginn í höfuðið við Hlöllabáta á Ingólfstorgi.

Rétt eftir klukkan sex í morgun var maður sleginn með flösku í höfuðið á Sæbraut. Af því hlaust töluverð blæðing og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert