Fréttaskýring: Sveitarfélögin skoða hvernig launahækkun verður mætt

Leikskólakennarar sömdu við sveitarfélögin á laugardag.
Leikskólakennarar sömdu við sveitarfélögin á laugardag. mbl.is/Eggert

„Að sjálfsögðu þarf að taka allan viðbótarkostnað til skoðunar og okkar fjármálaskrifstofa mun fara yfir áætlaðan kostnað vegna þessa samnings. En þetta mun ekki sliga sveitarfélagið,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Sveitarfélögin standa misvel að vígi til að mæta launahækkun leikskólakennara, sem samningar náðust um á laugardag. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ljóst að sveitarfélögin þurfi að bregðast við viðbótarútgjöldum með því annaðhvort að skera niður þjónustu eða auka tekjur sínar. Það sé hinsvegar undir hverju og einu sveitarfélagi komið hvaða leið verði farin til að fjármagna launahækkanirnar.

Þungt til lengri tíma lítið

Árni Sigfússon segir að í tilfelli Reykjanesbæjar hafi hlutfall sveitarfélagsins í kostnaði við rekstur leikskóla hækkað mjög mikið á síðustu 8 árum. Áður hafi foreldrar greitt um 25% af heildarkostnaði til móts við sveitarfélagið, en greiði nú rúmlega 10%. Svigrúm sveitarfélagsins til að taka á sig viðbótarkostnað sé því eðli málsins samkvæmt minna. Í Reykjanesbæ eru 10 leikskólar, þar af 4 einkareknir.

„Þetta er það sem við þurfum að skoða, en á sama tíma gerum við okkur grein fyrir að foreldrar eru ekki síður í erfiðri stöðu en sveitarfélögin. Þetta eru staðreyndirnar en það þýðir lítið annað en að vinna saman að lausn á þessu. Leikskólakennarar vinna mjög mikið starf og það var orðinn óeðlilega mikill launamunur milli kennarastétta. Við höfum fullan skilning á að það þurfi að leiðrétta það.“

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, segir að áhrifin á fjárhag bæjarins séu ekki ljós þar sem nákvæmar prósentutölur launahækkunar hafi ekki verið gefnar upp. „Vonandi er þetta á svipuðum nótum og það sem er að gerast á almenna markaðnum, en til lengri tíma gæti þetta orðið þyngra ef til stendur að jafna launin eins og manni heyrist. Almennt er það svo að kjarasamningarnir taka í budduna hjá okkur sem þýðir að við þurfum að skoða hvernig við getum mætt þeim. Við erum einmitt í því þessa dagana að finna út hvernig við getum mætt þessum áhrifum því það þarf að horfa í hverja einustu krónu í rekstri sveitarfélaganna í dag.“

Flókin samningagerð

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins varð miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara til þess að sættir náðust á laugardag. Samningurinn er sagður fela í sér leiðréttingu launa leikskólakennara til jafns við aðrar stéttir, en efni hans verður ekki gefið upp strax. „Þetta er flókinn samningur og eðlilegt að [Félag leikskólakennara] fái tóm til að útskýra hann fyrir sínu fólki,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna. Hún staðfestir að upphafshækkun launa verði 7%, en ráðist verður í greiningarvinnu á launum sambærilegra stétta áður en ákveðið verður í hversu stórum skrefum og á hve löngum tíma frekari hækkanir verða. Aðspurð segir Inga Rún að sú vinna sem framundan er verði unnin í sameiningu enda sé samningurinn á forræði beggja aðila.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert