Norðurskautið rætt á fundi Vestnorræna

Staða Vesturnorðurlanda og sameiginlegir hagsmunir þeirra á Norðurskautinu, flutningur matvæla á milli vestnorrænu landanna og samstarf um kvikmyndagerð er meðal þess sem rætt verður á ársfundi Vestnorræna ráðsins sem hefst á Bifröst í dag og stendur til 25. ágúst.

 Fyrir fundinum liggur tillaga um að ráðið hafi frumkvæði að því að fjalla sérstaklega um sérhagsmuni landanna þriggja varðandi Norðurskautið auk þess að greina og skilgreina sameiginlega hagsmuni þeirra.

 Jafnframt óska nokkrir þingmenn eftir því að ráðið taki afstöðu til hvort eðlilegt geti talist að innflutningur grænlenskra matvæla til Íslands til eigin nota sé bannaður.  Kosið verður um tillögu sem liggur fyrir fundinum um að hvetja ríkisstjórnir landanna til þess að tryggja að vestnorrænir borgarar fái að flytja kjöt og fisk til eigin nota og upp að vissu marki óhindrað milli landanna, segir í fréttatilkynningu.

Á fundinum verður yfirlýsing ráðsins um rétt Vestur-Norðurlanda til sjálfbærra veiða hvala og sela rædd og bann Evrópusambandsins við innflutningi selaafurða til sambandsins.  Og hversu illa sú ákvörðun sambandsins hittir veiðimannasamfélög í Grænlandi fyrir.  Skýrt verður frá niðurstöðum viðræðna sem forsætisnefndin átti við Evrópuþingið um þessi mál.

Ráðið mun einnig ræða hvort og þá hvernig væri best að koma á samstarfi milli landanna á sviði kvikmynda- og þáttagerðar.

Yfir 20 vestnorrænir og norskir þingmenn taka þátt í ársfundinum auk Steingríms J. Sigfússonar fjármála- og samstarfsráðherra.

Meðal annarra efna sem fundurinn mun taka afstöðu til eru umhverfismál, endurvinnsla, samstarf á sviði tónlistar og fornleifar.

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður er formaður ráðsins.  Auk hennar sitja Josef Motzfeldt forseti Landsþings Grænlands og Kári P. Højgaard þingmaður í Færeyjum í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja.  Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert