Drekafluga á sveimi á Kambsvegi

Drekafluga.
Drekafluga.

Starfsfólk Náttúrufræðistofunnar fékk nýlega fregnir af drekaflugu á sveimi í húsagarði við Kambsveg í Reykjavík, skammt frá Sundahöfn. Drekaflugan náðist ekki en heimilisfólkið náði ágætum ljósmyndum af henni.

Fram kemur á vef Náttúrufræðistofu Kópavogs, að ekki hafi verið hægt að greina fluguna til tegundar af ljósmyndunum en af þeim megi ráða að um 10 cm langt dýr hafi verið að ræða.

Náttúrufræðistofan segir, að drekaflugur tilheyri ættbálki vogvængja sem séu stór hraðfleyg skordýr með stór augu, stutta fálmara, samanrekinn frambol og langan grannan afturbol. Á frambolnum sitji sterklegir fæturnir og tvö pör stórra vængja með þéttriðið æðanet. Eitt af einkennum drekaflugna sé að þær halda vængjunum lárétt út frá bolnum í hvíld.

Drekaflugur eru sjaldséðir flækingar á Íslandi. Öðru hverju berast þær með varningi frá útlöndum, en einnig eru dæmi um að þær hafi borist með vindum frá N-Afríku. Talið er að drekaflugan á Kambsveginum hafi borist til landsins með skipi sem lagðist að í Sundahöfn og þaðan farið á flakk í blíðviðrinu.

Vefur Náttúrufræðistofu Kópavogs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert