Verður ekki klárað í september

Ráðherrar ræddu við blaðamenn í Iðnó í dag.
Ráðherrar ræddu við blaðamenn í Iðnó í dag. mbl.is/Ernir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að heildarlög um stjórn fiskveiða verði ekki afgreidd á septemberþinginu. Þetta þýðir að leggja verður frumvarpið eða breytt frumvarp fram að nýju á þinginu sem hefst í október.

Alþingi kemur saman til fundar í byrjun september en þá verða tekin til umræðu frumvörp sem ekki tókst að afgreiða fyrir þingslit í vor. Samkvæmt lögum um þingsköp verður þinginu síðan slitið í lok september og nýtt þing tekur til starfa 1. október. Ef mál klárast ekki á septemberþinginu þarf að flytja þau að nýju.

Frumvarpið um stjórn fiskveiða var lagt fram í vor og vísað til nefndar að lokinni fyrstu umræðu. Frumvarpið var síðan sent til umsagnar hagsmunaaðila og hafa umsagnirnar verið að skila sér síðustu daga. Almennt eru þær neikvæðar.

Jóhanna sagði í samtali við Morgunblaðið að það hefði aldrei verið stefnt að því að klára afgreiðslu frumvarpsins á septemberþinginu. „Frumvarpið er núna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Verið er að fara yfir umsagnir og síðan munum við skoða hvernig málinu verður framhaldið á októberþinginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert