Skýrsla um stjórnlagaráð rædd í einn dag

Þór Saari.
Þór Saari.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir á bloggvef sínum, að á sumarfundi forsætisnefndar Alþingis í vikunni hafi m.a. verið rætt um tillögu frá forseta Alþingis um það hvernig farið verði með frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Þór segir, að tillagan geri ráð fyrir að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu frá forsætisnefnd þingsins við upphaf nýs þings í október og síðan verði umræða um hana í heilan dag á fyrstu dögum nýs þings að lokinni 1. umræðu um fjárlög og fjáraukalög. Að lokinni umræðu um skýrsluna gangi hún til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar.

„Svo er nú það og sýnist væntanlega sitt hverjum. Hér er sem sagt verið að leggja til (og í raun búið að ákveða) að öll sú vinna sem þjóðfundurinn, stjórnlaganefndin og stjórnalgaráðið hafa unnið, endi sem skýrsla á Alþingi og verði rædd þar í einn dag. Síðan fari skýrslan til nefndar sem enn er ekki til, en tilgreind stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nýmæli í nýjum s.k. þingsköpum sem eru þau lög sem Alþingi starfar eftir og munu taka gildi 1. október. Sú nefnd á svo að gera eitthvað við skýrsluna," segir Þór.

Hann gagnrýnir þessa málsmeðferð en segir, að  áframhald málsins sé í raun að einhverju leyti galopið og ekki endilega þar með sagt að Alþingi hafi „stolið málinu frá þjóðinni" eins og margir séu hræddir um að gerist. 

„Eitt er hins vegar alveg á hreinu og það er að ef Alþingi með öll sérhagsmunatengsl fjórflokksins og þingmanna í forgangi kemst upp með það byrja að breyta efnislega atriðum í frumvarpi stjórnlagaráðs, þá er málið ónýtt og hugmyndin um nýja stjórnarskrá er dauð. Almenningur verður því að láta málið til sín taka," segir Þór.

Bloggsíða Þórs Saari

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert