Rannsaki Sparisjóð Keflavíkur

SpKef.
SpKef.

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Suðurnesjum ályktar að ráðherrar VG í ríkisstjórn skuli beita sér fyrir rannsókn á falli Sparisjóðs Keflavíkur. Stjórnin ályktar jafnframt um Landhelgisgæsluna og Hitaveitu Suðurnesja. 

Orðrétt segir í ályktuninni:

„Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hótel Loftleiðum 26.-28. ágúst 2011, beinir því til ráðherra og þingmanna flokksins að þeir standi vörð um gefin loforð um aukið gagnsæi í stjórnsýslunni. Í síðustu kosningabaráttu lýstu báðir stjórnarflokkarnir því yfir að rannsóknir á falli banka og sparisjóða yrðu gerðar opinberar.

Við fall Sparisjóðs Keflavíkur misstu margir einstaklingar aleiguna og sitja jafnvel uppi með stórar skuldir á bakinu. Í ljósi þessa krefst fundurinn þess að rannsókn sú sem framkvæmd var fyrir slitastjórnina og er nú í höndum FME [Fjármálaeftirlitsins] verði gerði opinber og hvetur þingflokk og ráðherra VG til þess að beita sér fyrir því.“

Þá er vikið að Landhelgisgæslunni.

„Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hótel Loftleiðum 26. - 28. ágúst 2011, skorar á stjórnvöld að taka þegar í stað ákvörðun um að flytja hingað til Suðurnesja Landhelgisgæsluna og starfsemi henni tengda, þar sem húsnæði bíður nánast tilbúið.“

Og svo er vikið að Hitaveitu Suðurnesja í þriðja lið ályktunardaga:

„Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hótel Loftleiðum 26.-28. ágúst 2011, skorar á stjórnvöld og ráðherra VG að koma Hitaveitu Suðurnesja aftur í almenningseigu, enda er það í fullu samræmi við stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar um þjóðareign á auðlindum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert