7 þúsund ný störf í augsýn

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra taldi á Alþingi í morgun upp ýmsar aðgerðir víða um land, opinberar og hálfopinberar, sem hún sagði að ættu að skila með beinum hætti í kringum 7 þúsund nýjum störfum á næstu árum og fjölda afleiddra starfa.

Sagði Jóhanna, að þessar fjárfestingar væru upp á 80-90 milljarða króna. Þá væru ótaldar framkvæmdir í orkuverum og stóriðju en vænta mætti þess að þar muni verða til sambærilegur fjöldi nýrra starfa.

Fram kom einnig í máli Jóhönnu, að hlutur launa af landsframleiðslu hefði aldrei verið lægri en nú eða 59%, samanborið við 72% árið 2007. Lækkunin svaraði til 13% af landsframleiðslu, um 200 milljarða króna, sem farið hefðu frá launþegum til fyrirtækja.

„Það ætti að létta mörgum fyrirtækjum að standa undir kjarabótum án þess að hækkuninni sé velt út í verðlagið," sagði Jóhanna.

Stjórnarandstaðan efnahagsvandamál

Í lok umræðunnar gagnrýndi Jóhanna Sigurðardóttir stjórnarandstöðuna harðlega og sagði að niðurrif stjórnarandstöðunnar væri að verða eitt helsta efnahagsvandamálið. Það eina sem kæmi frá þeim bæ væri niðurrif og tal um að allt væri í kaldakoli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert