Milljón manns um Þingvelli

Almannagjá á Þingvöllum.
Almannagjá á Þingvöllum. mbl.is/ÞÖK

Bílaumferð um þjóðgarðinn á Þingvöllum hefur aukist gífurlega undanfarið, með tilkomu nýja vegarins um Lyngdalsheiði, og ætla má að um ein milljón manna fari um garðinn á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi Erni Haraldssyni þjóðgarðsverði.

Ólafur Örn segir að á veginum austan við þjóðgarðinn megi búast við að umferðin aukist um 200% og fari úr 260 bílum á sólarhring að meðaltali árið 2010 í 770 bíla á þessu ári. Þá megi gera ráð fyrir að umferðin milli Þingvalla og Laugarvatns vaxi stórlega með nýja Lyngdalsheiðarveginum, samanborið við gamla Gjábakkaveginn. Gert sé ráð fyrir að um 650 þúsund manns aki Lyngdalsheiðarveginn á þessu ári, sem sé í samræmi við áætlanir við hönnun vegarins.

Þjóðgarðsvörður segir að Vegagerðin annist mælingar til þess að fylgjast með mengun frá umferðinni. Mengunin leiti í Þingvallavatn þar sem náttúrufar og lífríki sé einstakt og á heimsvísu.

50 km hámarkshraði

Í tilkynningu frá þjóðgarðsverði segir: „Mestur umferðarþungi á Lyngdalsheiðarveginum var um helgar síðasta sumar eins og vænta mátti og óku þá um 4-7 þúsund bílar um veginn frá föstudegi til sunnudags. Þessi mikla umferð verður til þess að æ fleiri koma í þjóðgarðinn og sjá fegurð hans. Um leið þarf að bæta þar þjónustu og þá skapast viðskiptamöguleikar sem þjóðgarðurinn hlýtur að nýta. En þessar nýju aðstæður kalla á að ekið sé varlega og að ökumenn virði að þeir aka í gegnum þjóðgarð þar sem áhersla er á ósnortið náttúrufar og friðsæld. Þjóðgarðurinn og Vegagerðin eiga gott samstarf um ýmsar mótvægisaðgerðir vegna umferðaraukningarinnar og er tilgangur þeirra að óska eftir að gætt sé að hraða og hættum. Gestir þjóðgarðsins og þeir sem um hann fara eru því boðnir velkomnir um leið og þeir eru beðnir um að virða 50 km hámarkshraða á kaflanum milli þjóðgarðsmarka. Á þessum 7 km kafla sparast aðeins 2 mínútur og 24 sekúndur með hraðakstri sem því miður er of algengur.“

Veruleg áhrif aukinnar bílaumferðar

Ólafur Örn segir áhrif aukinnar bílaumferðar veruleg. „Slysahætta er meiri enda eru vegir mjóir og sjónlínur stuttar. Fjöldi stórra hópferðabíla er mikill og einnig bíla með tengivagna af ýmsu tagi. Engar manir eða axlir við vegabrúnir eru á veginum gegnum þjóðgarðinn og tekur óbrotið hraunið við þeim sem aka út af veginum. Á nokkrum stöðum liggja göngu- og reiðleiðir þvert á veginn og eykur það einnig hættu á slysum. Þá hefur umferðargnýr vaxið í þjóðgarðinum en hann eykst mikið eftir því sem hraðar er ekið og spillir það friðsældinni sem hefur verið eitt af því eftirsóknarverða á Þingvöllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert