„Liðist ekki í öðru sakamáli“

Andri Árnason og Geir H. Haarde í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Andri Árnason og Geir H. Haarde í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mbl.is/Golli

Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde, sagði við Landsdóm í morgun að krafan um frávísun byggðist einkum á nokkrum þáttum. Hann nefndi meðal annars að fyrirkomulagi á rannsókn málsins hefði verið ábótavant og Geir hefði hvorki fengið að sjá málsgögn né tjá sig um sakaratriði.

Saksóknari teldist vanhæfur vegna beinna afskipta af undirbúningi málsins áður en ákæran var gefin út, ekki hefði verið gætt að jafnræðisreglu varðandi ákæruna og margt væri á huldu varðandi það hvernig staðið hefði verið að því að sækja Geir einan til saka.

„Allar þessar ástæður hafa bein áhrif á réttastöðu sakbornings, fari málið fram að óbreyttu,“ sagði Andri.

Andri sagði að samkvæmt 5. grein um rannsókn sakamála væri ekki grundvöllur fyrir málsókn á hendur Geir því rannsókn málsins hefði öll miðað að því að ætlunin hafi verið að sækja hann til saka. „Til hvers er þá slík rannsókn yfirhöfuð?“ spurði Andri.

„Það átti að fara fram raunveruleg sakamálarannsókn, þar sem ákærði hafði meðal annars möguleika á að svara fyrir sig,“ sagði Andri. „Í stað þess stendur hann frammi fyrir dómsmáli þar sem hann er formlega ákærður en hefur aldrei fengið að sjá gögnin.“

„Þetta kann að hljóma ótrúlega,“ bætti hann við.

Andri lagði áherslu á að það skipti miklu máli fyrir sakborninga að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir ákæru en ekki eftir að búið væri að gefa hana út.

„Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis var ekki sakamálarannsókn, hún hefði getað verið ágætis grunnur að áframhaldandi rannsókn, en getur ekki komið í veg fyrir hana.“

„Hvernig getur það gerst á 21. öldinni að sakamál er höfðað áður en sakamálarannsókn fer fram?“ spurði Andri.

„Myndu svona vinnubrögð líðast í öðru sakamáli?“ spurði Andri. „Mér er það mjög til efs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert