Óverðtryggð lán á næsta ári

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að verði Íbúðalánasjóði (Íls.) veitt heimild til að veita óverðtryggð lán sé ljóst að slíkt komi ekki til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Um sé að ræða mjög stóra kerfisbreytingu sem sé einnig háð því að stórir fagfjárfestar, á borð við lífeyrissjóðina, komi inn og séu tilbúnir til að taka þátt með Íls. Ýmislegt þurfi að skoða þar sem skuldabréfamarkaðurinn í dag sé að mörgu leyti ekki tilbúinn til að veita óverðtryggð lán til langs tíma.

Um vænt vaxtakjör segir Sigurður að það sé ljóst að ef óverðtryggða leiðin verður farin, sérstaklega lán með óverðtryggðum föstum vöxtum sem séu að mörgu leyti ákjósanlegur kostur, sé ekki verið að tala um 5% vexti heldur eitthvað hærra. Á móti fá heimilin það öryggi að vita hvaða afborganir bíða í framtíðinni í stað þess að fá eitthvað óvænt í fangið, sem jafnvel getur farið með allar forsendur í fjármálum heimila.

Deila áhættunni

Sigurður segir að það sé sín persónulega skoðun að mikilvægt sé að bjóða upp á ábyrgan valkost til neytenda, þar sem áhættunni sé skipt á milli lántakans og lánveitandans. Það sé ekkert betra að Íls. beri alla áhættuna, þar sem óbein ríkisábyrgð þýði að það lendi þá á skattgreiðandanum að borga. Það þurfi að komast út úr þessum vítahring og ná fram ákveðinni sjálfbærni með því að finna þennan gullna meðalveg á milli sjóðsins og neytandans.

Ekki boðið upp á endurfjármögnun strax

Hvað endurfjármögnun lána varðar segir Sigurður að hingað til hafi tíðkast að fólk geti ekki endurfjármagnað lán sem það er með hjá Íls. nema það sé að kaupa nýja eign og þurfi þá nýtt lán vegna þeirra viðskipta. Í fyrstu atrennu sé ólíklegt að boðið verði upp á að skuldbreyta úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð. Þegar fram í sækir og komin sé á virkari samkeppni sé það hins vegar mikill kostur að geta endurfjármagnað lán án þess að vera að standa í fasteignakaupum.

Í löndunum í kringum okkur sjáist núna að fólk sé að spara sér einhverjar fjárhæðir með  því að endurfjármagna lánin að sögn Sigurðar. Það séu næstu skref til að vera fyllilega sambærileg við evrópska markaði að hægt sé að endurfjármagna án þess að vera í fasteignaviðskiptum. Það sé langtímahugsunin og sú þróun sjáist t.d. í Bretlandi og á Norðurlöndunum að fólk endurfjármagni lán sín á rúmlega fimm ára fresti.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert