Gagnrýna orð Bjarna

Frjálshyggjufélagið gagnrýnir ummæli Bjarna Benediktssonar
Frjálshyggjufélagið gagnrýnir ummæli Bjarna Benediktssonar mbl.is/Ómar

Frjálshyggjufélagið gagnrýnir í ályktun sinni ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um erlenda fjárfestingu á íslensku landi. Mikil umræða hefur verið um áform kínverska auðmannsins Huangs Nubo að reisa 300 herbergja hótel í Reykjavík og byggja upp ferðaþjónustu á 300 ferkílómetra landi á Grímsstöðum á Fjöllum. Erlend fjárfesting er ein forsenda aukinna lífsgæða hér á landi, segir í ályktun sem félagið sendi á fjölmiðla.

Andúð róttækra vinstrimanna á erlendri fjárfestingu er vel kunn, en hins vegar kveður við nýjan tón hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann segir það ekki sjálfsagt að útlendingar geti keypt stórar jarðir hér á landi. Frjálshyggjufélagið fordæmir ummæli Bjarna. Með ummælum sínum er hann kominn í flokk með Ögmundi Jónassyni og Lilju Mósesdóttur sem amast hafa hvað helst við Huang Nubo.

Erlend fjárfesting er lykilatriði í framtíðarvelgengni íslenska þjóðarbúsins. Nóg er að líta til sögunnar. Eitt mesta framfaraskeið í atvinnumálum hér á landi var í byrjun tuttugustu aldar þegar erlendir aðilar komu á fót banka sem hóf að lána til atvinnuuppbyggingar. Það er háskaleg þróun ef þjóðernishyggja og sósíalismi eru orðin aðalviðmiðin í íslenskum stjórnmálum, þar sem ofuráhersla er lögð á að vernda sérhagsmuni innlendra aðila og bægja útlendingum frá. Stefna af þessu tagi mun ekki leiða annað en örbirgð yfir þjóðina.

Ályktun Frjálshyggjufélagsins má sjá í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert