Gefur kost á sér til endurkjörs

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér til áframhaldandi forystustarfa fyrir Samfylkinguna, en landsfundur flokksins verður haldinn 21.-23. október nk. í íþróttamiðstöð Vals að Hlíðarenda.

Jóhanna upplýsti um ákvörðunina í dag í bréfi til flokksfélaga, þar sem hún jafnframt þakkar þeim fjölmörgu sem tekið hafa þátt í umbótastarfi flokksins að undanförnu. Í bréfinu segir m.a.: „Sá mikli stuðningur og traust sem mér hefur verið sýnt og sú góða samstaða sem ríkt hefur í Samfylkingunni hefur verið ómetanlegt í þeim verkefnum sem við í Samfylkingunni höfum tekist á við í kjölfar hrunsins. Ég býð mig fram til áframhaldandi formennsku í þeirri trú að áfram njóti ég stuðnings og trausts félaga minna í Samfylkingunni til að leiða þau mikilvægu verkefni til lykta." Bréfið fer hér á eftir í heild sinni:

„Kæri Samfylkingarfélagi

Þó ótrúlegt megi virðast eru nú liðin ríflega tvö og hálft ár síðan ég var kjörin formaður flokksins okkar. Þessi tími hefur liðið hratt enda verkefnin verið ærin, bæði í landsmálunum og ekki síður á vettvangi Samfylkingarinnar.

Sem forystuflokkur í ríkisstjórn og á Alþingi hefur Samfylkingin leitt umfangsmikið uppgjörs- og uppbyggingarstarf vegna þeirra gríðarlega alvarlegu afleiðinga sem hrunið hafði á efnahag og samfélag okkar Íslendinga. Við höfum einnig stigið margvísleg mikilvæg skref til að þróa íslenskt samfélag í átt til aukins jöfnuðar, réttlætis og lýðræðislegri stjórnarhátta.

Á sama tíma höfum við í Samfylkingunni farið í gegnum rækilega naflaskoðun þar sem allt starf og stefnumótun hreyfingarinnar hefur verið yfirfarið og endurmetið. Þetta umfangsmikla umbóta- og uppbyggingarstarf hefur farið fram um allt land, í öllum stofnunum flokksins og þúsundir flokksmanna hafa tekið þátt. Fyrir það vil ég þakka. Ég hygg að umbótaverkefnið sé að flestu leyti einstakt í íslenskri stjórnmálasögu.

Það hefur því mikið gengið á í pólitíkinni á liðnum árum, tekist er á um mikla hagsmuni og engan þarf að undra að gustað hefur um okkur í Samfylkingunni. Þegar horft er um öxl er hins vegar ómögulegt annað en að gleðjast yfir árangrinum þennan tíma – hann blasir við þó enn séu brýn úrlausnarefni framundan.

Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn í íþróttamiðstöð Vals að Hlíðarenda í Reykjavík dagana 21.-23. október næstkomandi. Undirbúningur fyrir fundinn stendur nú sem hæst en þar er m.a. fyrirhugað að leggja línurnar um starf og stefnu Samfylkingarinnar á grundvelli þess mikla umbóta- og málefnastarfs sem fram hefur farið. Á fundinum bíður okkar einnig að velja til forystu þá einstaklinga sem við best treystum fyrir framhaldinu.

Í ljósi þessa vildi ég með bréfi þessu upplýsa þig um að ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi forystustarfa fyrir Samfylkinguna. Satt best að segja rennur mér blóðið til skyldunnar að leggja áfram mitt lóð á vogarskálarnar og mig langar að leiða til lykta þau fjölmörgu mikilvægu mál sem við í Samfylkingunni höfum sett á dagskrá stjórnmálanna á undanförnum árum.

Ég nefni til að mynda aðildarumsóknina að ESB, nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, afgreiðslu tillagna Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, endurskipulagningu Stjórnarráðsins, nýtt almannatryggingakerfi, nýja skipan húsnæðismála, stofnun auðlindasjóðs og tryggari skipan auðlindamála þjóðarinnar.

Á næstu mánuðum og misserum bíður okkar einnig að stíga mikilvæg skref í efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar. Sjálfbær fjárlög, stöðugt efnahagslíf og lífskjarasókn í formi fjölgunar starfa, aukins kaupmáttar og jafnari kjara. Allt er þetta innan seilingar ef rétt er á málum haldið.

Sá mikli stuðningur og traust sem mér hefur verið sýnt og sú góða samstaða sem ríkt hefur í Samfylkingunni hefur verið ómetanlegt í þeim verkefnum sem við í Samfylkingunni höfum tekist á við í kjölfar hrunsins. Ég býð mig fram til áframhaldandi formennsku í þeirri trú að áfram njóti ég stuðnings og trausts félaga minna í Samfylkingunni til að leiða þau mikilvægu verkefni til lykta."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert