Fréttaskýring: Vinnugögn verði aðgengileg eftir 4 ár

Allsherjarnefnd vill að frumvarpi til upplýsingalaga verði breytt til að …
Allsherjarnefnd vill að frumvarpi til upplýsingalaga verði breytt til að auka aðgang almennings og fjölmiðla að gögnum í stjórnsýslunni. mbl.is/Eggert

Meirihluti allsherjarnefndar Alþingis leggur til að gerðar verði ýmsar breytingar á frumvarpinu til upplýsingalaga í nefndaráliti og breytingartillögum við það.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið er Blaðamannafélag Íslands, sem hefur talið það fjölga í reynd undanþágum frá upplýsingaskyldu hins opinbera, ekki síst ákvæði um að ekki verði veittur aðgangur að vinnugögnum.

Meirihluti allsherjarnefndar kemur til móts við þessa gagnrýni og leggur til breytingar sem eiga að auka aðgang almennings og fjölmiðla að gögnum í stjórnsýslunni.

Ná til fyrirtækja sem eru í 51% eigu hins opinbera eða meira

Mjög skiptar skoðanir hafa verið um þá tillögu að upplýsingalögin nái framvegis líka til fyrirtækja og félaga sem eru í 75% eigu hins opinbera eða meira. Meirihluti nefndarinnar leggur nú til að þetta verði víkkað enn frekar og miðað við 51% eignarhlut. „Meiri hlutinn telur að þegar um fyrirtæki í opinberri eigu sé að ræða eigi upplýsingar um starfsemi þeirra að vera aðgengilegar fyrir almenning og leggur því til að gildissviðið verði miðað við lögaðila sem eru að 51% hluta í eigu hins opinbera. [...] Meiri hlutinn tekur fram að í þessu felist ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar sem þessa lögaðila varða verði aðgengilegar almenningi,“ segir í nefndarálitinu.

Þá er sá fyrirvari settur að vegna samkeppnishagsmuna verði heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.

Í frumvarpinu eins og það var upphaflega úr garði gert eru afar umdeild ákvæði, þar sem talin eru upp gögn sem verði áfram undanþegin upplýsingarétti almennings, m.a. vinnugögn sem skrifuð hafa verið við undirbúning ákvörðunar o.fl. BÍ gagnrýndi þetta harðlega og taldi þarna allt of víðtæka heimild veitta til að loka inni vinnugögn.

Meirihluti allsherjarnefndar leggur nú til að opnað verði á aðgang að þessum upplýsingum að tilteknum tíma liðnum. Verði breytingatillögurnar lögfestar skal framvegis veita aðgang að fundargerðum ríkisráðs og ríkisstjórnar og minnisgreinum frá slíkum fundum að liðnu einu ári nema aðrar takmarkanir í lögum komi í veg fyrir það.

Fram kemur í nefndarálitinu að ástæða sé til að ganga lengra á fleiri sviðum en gert er í frumvarpinu og lagt er til að veittur verði aðgangur að margvíslegum gögnum sem talin voru sérstaklega upp í 6. grein að ættu að vera undanþegin upplýsingarétti eins og áður segir.

Meirihluti allsherjarnefndar vill að þessi aðgangur að gögnunum verði veittur að fjórum árum liðnum frá því að þau urðu til eða jafnskjótt og „ráðstöfun er að fullu lokið“, eins og þar segir.

Hér er m.a. um að ræða gögn sem útbúin hafa verið af sveitarfélögum vegna samskipta við ríkið um fjárhagsleg málefni þeirra. Bréfaskriftir sem átt hafa sér stað við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Ennfremur gögn sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa og loks á að fást aðgangur að vinnugögnum, eins og fyrr segir, en þó ekki fyrr en að fjórum árum liðnum.

Tekið er þó fram að aðrar takmarkanir í lögum geti hindrað aðgang að þessum gögnum og er þar væntanlega einkum átt við upplýsingar um viðkvæm einkamálefni.

Birta lista yfir öll mál

» Í upphaflegu frumvarpi sagði að forsætisráðherra gæti sett fyrirmæli um birtingu gagna og upplýsinga stjórnvalda á vefsíðum þeirra.
» Meiri hluti allsherjarnefndar vill breyta þessu þannig að listi yfir öll mál og gögn sem skylt er að skrá í málaskrár opinberra aðila, uppruna þeirra og innihald, skuli vera almenningi aðgengilegur.
» Sá fyrirvari er þó hafður á að ekki megi vega að hagsmunum sem njóta verndar 9. og 10. greinar um takmarkanir á upplýsingarétti ef um einkamálefni einstaklinga er að ræða eða vegna almannahagsmuna, s.s. vegna öryggis ríkisins o.fl.
» Í nefndarálitinu er því haldið fram að þessi breyting leggi mjög ríkar skyldur á stjórnvöld sem feli í sér gríðarlega breytingu í framkvæmd. Því verði að gefa 6 mánaða aðlögunartíma að henni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert