Forsetinn á allra vörum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi sem haldinn var …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi sem haldinn var í kjölfar þess að þjóðin synjaði Icesave-lögunum staðfestingar öðru sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þegar aðeins nokkrir mánuðir eru þar til kosningabaráttan fyrir komandi forsetakosningar mun að óbreyttu hefjast er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í þeirri stöðu að innan við helmingur landsmanna vill að hann bjóði sig fram fimmta kjörtímabilið í röð.

Þetta má lesa úr nýrri könnun vefjarins Vísis og Stöðvar 2 en samkvæmt henni vilja nú 48% landsmanna að forsetinn bjóði fram krafta sína á ný en meirihlutinn, 52%, að forsetinn láti staðar numið, sextán árum eftir að hann vann góðan sigur í forsetakosningunum 1996.

Á vef Vísis segir að um 800 manns hafi tekið þátt í könnuninni en þar kemur ekki fram hvert svarhlutfallið var. Stuðningur við forsetann var misjafnlega mikill eftir flokkum og bendir könnunin til að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vilji forsetann áfram en að stuðningsmenn VG og Samfylkingar vilji það gagnstæða.

Könnunin var gerð síðasta fimmtudag og því í kjölfar mikillar gagnrýni sem beindist að forsetanum eftir að hann lýsti því yfir um síðustu helgi að ríkisstjórnin hefði látið undan „fáranlegum kröfum“ Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. 

Könnunin var því með öðrum orðum gerð á þeim tímapunkti þegar stjórnarliðum þykir illa að sér vegið frá Bessastöðum og er því ekki við öðru að búast en að sú staðreynd hafi að minnsta kosti einhver áhrif á afstöðu stuðningsmanna stjórnarflokkanna þegar afstaða þeirra til framboðs Ólafs Ragnars var könnuð.

Úr háum söðli að falla

Hvað sem þeim vangaveltum líður hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan árið 2004 þegar könnun Fréttablaðsins benti til að 85% þeirra sem tóku afstöðu vildu Ólaf Ragnar áfram í forsetaembætti, að því er fram kemur í kaflanum Átökin árið 2004 og aðdragandi þeirra úr ævisögunni Saga af forseta. Var niðurstaðan birt 22. mars og því skömmu áður en öðru kjörtímabili forsetans var að ljúka. Fjölmiðlafrumvarpið var þá bitbein dagsins.

Þá má nefna að í eftirmála Sögu af forseta rifjar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur upp að 87% landsmanna lýstu sig ánægða með störf forsetans í könnun Gallups sem birt var 1. mars 2008. Lýstu 86% aðspurðra jafnframt yfir stuðningi við endurkjör forsetans.

„Einungis 10% þjóðarinnar vildu annan forseta,“ rifjar Guðjón upp.

1% áleit forsetann sameiningartákn

Vart þarf að taka fram að hrunið og meintur þáttur forsetans í útrásinni dró verulega úr stuðningi við Ólaf Ragnar og má rifja upp að aðeins 1% aðspurðra áleit hann sameiningartákn þjóðarinnar í könnun sem MMR gerði 15. september 2009 og lesa má um hér.

Nú er forsetinn í þeirri stöðu að um helmingur þjóðarinnar vill hann áfram og kynni einhverjum að þykja það ágæt staða í ljósi þess sem á undan er gengið. Þá eru margir mánuðir eftir til atkvæðaveiða, kjósi forsetinn á annað borð að gefa kost á sér fimmta kjörtímabilið, fyrstur forseta.

Forsætisráðherra krefst skýringa

Í ljósi þess að óðum styttist í þriggja ára afmæli hrunsins og umræður um hvernig til hefur tekist við landsstjórnina siðan má ætla að ummæli forsetans verði gleymd og grafin með haustinu.

En eins og rakið er í Morgunblaðinu í dag hyggst Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ræða við forsetann við fyrsta tækifæri og krefja hann svara um ummælin sem hér eru gerð að umtalsefni.

Orðrétt sagði Jóhanna í samtali við fréttastofu RÚV.

„Það er alveg ljóst að ef þetta er rétt eftir forseta haft þá er þarna mjög ómaklega vegið að ríkisstjórninni og fráleitt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi látið aðrar þjóðir beygja sig,“ sagði Jóhanna í samtali við RÚV.

Voru ummælin heldur varfærnisleg í ljósi þess að forsetinn lýsti yfir þessari skoðun sinni í beinni ræðu í fyrstu frétt á RÚV síðasta sunnudag og án þess að skoðanir hans væru dregnar saman í óbeinni ræðu af hálfu fréttamanns. 

Forsetinn gekk of langt

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur margoft lýst yfir stuðningi við þá ákvörðun forsetans að vísa Icesave-deilunni tvívegis til þjóðaratkvæðagreiðslu. Komst Styrmir raunar svo að orði í einum pistla sinna að margir harðir sjálfstæðismenn geti vel hugsað sér að kjósa forsetann vegna framgöngu hans í deilunni.

Nú bregður hins vegar svo við að Styrmir skrifar pistil með fyrirsögninni „Forsetinn gekk alltof langt“. Þar skrifar Styrmir orðrétt:

„Þegar forsetinn tók hins vegar til við að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir vesaldóm og aumingjaskap í Icesave-málinu um síðustu helgi tel ég að hann hafi farið langt út fyrir þau mörk, sem embætti hans eru sett. Þó skal tekið fram að ég var sammála hverju einasta orði sem hann sagði um þátt ríkisstjórnarinnar í málinu. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er að forseti Íslands er ekki beinn aðili að stjórnmálabaráttunni í landinu. Hann á ekki og má ekki blanda sér í dægurpólitískar deilur með þeim hætti sem hann gerði fyrir viku.“

Styrmir telur framgöngu Ólafs Ragnars vitna um sýn forsetans á forsetaembættið:

„En það verður ekki aftur snúið. Ólafur Ragnar hefur örugglega ekki talað svona að óathuguðu máli. Hann er bersýnilega þeirrar skoðunar að svona eigi forsetaembættið að vera. Forseti eigi að geta skammað stjórnmálamenn við og við finnist honum tilefni til. Það er sjónarmið sem sjálfsagt er að ræða og raunar óhjákvæmilegt að ræða úr því sem komið er.“

Ríkisráð leiðrétti ummæli forsetans 

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gerir gagnrýni þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar, Eiðs Guðnasonar og Svavars Gestssonar á framgöngu forsetans að umtalsefni í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu um helgina.

Er niðurstaða Þorsteins sú að kalla beri ríkisráð saman til að bóka ágreiningsálit sem síðan megi koma á framfæri við aðrar þjóðir til að leiðrétta ummæli forsetans, ef tilefni þykir.

Orðrétt skrifar Þorsteinn:

„Ríkisráð er sameiginlegur vettvangur æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins. Tilskipun um starfsreglur ríkisráðs gerir ráð fyrir að þar séu bókuð ágreiningsálit ef tilefni er til.
Í hvert sinn sem forseti Íslands gefur yfirlýsingar af því tagi sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni ber forsætisráðherra að kalla saman fund í ríkisráði. Þar á hann eða þeir ráðherrar aðrir sem hlut kunna að eiga að máli að bóka ágreiningsálit sem leiðréttir ummæli forsetans og skýrir afstöðu ríkisstjórnarinnar.

Slíka bókun á síðan að birta til þess að eyða tvímælum um hver er afstaða þess hluta framkvæmdarvaldsins sem ber stjórnskipulega ábyrgð. Utanríkisráðherra á síðan að afhenda þeim þjóðum sem hlut kunna að eiga að máli bókun ríkisráðs um rétta afstöðu stjórnvalda.

Málfrelsi forsetans má ekki hefta. En noti hann það með þeim hætti sem hann hefur gert eru viðbrögð af þessu tagi nauðsynleg ef stjórnskipunin á að standa og þjóðin að halda virðingu sinni í samfélagi þjóðanna,“ skrifar Þorsteinn Pálsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert