Yfirlýsing vegna framkvæmda við Skálholt

Samsett mynd sem sýnir Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju.
Samsett mynd sem sýnir Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju.

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Herði H. Bjarnasyni sendiherra vegna ummæla í fréttum í Morgunblaðinu um byggingu Þorláksbúðar við Skálholtskirkju:

„Undirritaður sér sig knúinn til að leiðrétta ummæli talsmanna Þorláksbúðarfélagsins, sem birtust í Morgunblaðinu 9. og 10. september sl. Er þar fjallað um nýjar byggingaframkvæmdir á Skálholtsstað.

Í blaðinu þann 9. september er haft eftir Árna Johnsen vegna byggingar svonefndrar Þorláksbúðar á byggingarreit Skálholtskirkju að „sr. Sigurður heitinn hafi haft samband við Garðar Halldórsson, sem gætir höfundarréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtskirkju“.

Þann 10. september er haft eftir sr. Kristjáni Björnssyni að framkvæmdin hafi verið kynnt öllum réttbærum aðilum og að „einnig var leitað samþykkis þeirra sem fara með höfundarrétt arkitekts kirkjunnar“.

Hvort tveggja er alrangt. Garðar Halldórsson gætir ekki höfundaréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, undirritaðs og systur hans Áslaugar Guðrúnar. Aldrei var leitað samþykkis handhafa höfundarréttar og koma byggingaframkvæmdir á staðnum þeim eins og mörgum öðrum algerlega á óvart. Ekki verður annað séð en að nýbyggingin sé alvarlegt stílbrot og skaði ásýnd kirkjunnar verulega. Þetta hefði verið svar handhafa höfundarréttar ef eftir því hefði verið leitað.

Hörður H. Bjarnason

sendiherra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert