Verðbólga át upp eignastöðu

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. Ómar Óskarsson

„Í rauninni tapaði ég ekki eignunum þannig. Þær voru verðtryggðar og verðbólgan át upp nær allan höfuðstólinn,“ segir Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar.

Í umræðum á Alþingi um afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna í dag sagði Guðbjartur að í hruninu hefði hann í þriðja sinn á ævinni gengið í gegnum þá reynslu að tapa nánast öllum sínum eigum.

„Árið 1979 og 1980 keypti ég tvær íbúðir í sama húsinu á Akranesi. Ég var að kaupa gamalt hús sem ég gerði upp. Þá var verðbólgan allt upp undir hundrað prósent og þessar eignir voru verðtryggðar. Verðbólgan át upp mestan höfðustólinn. Þá horfði maður aldrei á höfuðstólinn heldur bara á greiðslugetuna. Ég lifði það ágætlega af en þannig var það á þeim tíma,“ segir Guðbjartur.

Hann segist ekki hafa tapað húsinu og alltaf staðið í skilum með öll sín lán. Sagan hafi svo endurtekið sig með verðbólguskoti í kjölfar Norðurlandakreppunnar í kringum 1990 og í þriðja sinn árið 2008 með bankahruninu. Þá hafði Guðbjartur keypt raðhús þremur árum áður.

„Ég var að vekja athygli á því að þetta gerist því að við erum með svo viðkvæman gjaldmiðil. Við hefðum getað verið komin út úr þessu fyrir löngu ef við hefðum borið gæfu til þess að fara í Evrópuumhverfið. Það er bara mín skoðun. Sjálfur tók ég afstöðu árið 2002 með þeirri leið. Þar værum við laus við verðtryggingu og með lægri vexti þrátt fyrir allt,“ segir hann.

Þá hafi hann bent á í ræðu sinni hversu fjandsamleg skuldurum öll stjórnarár Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefðu verið eftir 1995.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert