Kærði skráningu á bíl

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir mbl.is

Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins, segir á bloggsíðu sinni að eiginmaður hennar hafi lagt fram stjórnsýsluákæru til innanríkisráðherra vegna synjunar Umferðarstofu um breytingu á skráningu bifreiðar fjölskyldunnar í ökutækjaskrá.

„Í ökutækjaskrá er eiginmaður minn skráður umráðamaður fjölskyldubílsins en SP fjármögnun eigandi,“ segir Eygló á bloggsíðu sinni.

Málavextir eru þeir að eiginmaður Eyglóar, Sigurður E. Vilhelmsson, keypti bifreið af Heklu með bílaláni frá SP fjármögnun árið 2004. Í kjölfarið var hann skráður umráðamaður bifreiðarinnar hjá ökutækjaskrá í gegnum Heklu.  Kaupin fóru þannig fram að Sigurður fór til Heklu, valdi sér bifreið og keypti af Heklu og samdi um greiðslukjör og verð við Heklu án þess að SP fjármögnun kæmi þar nokkuð nærri.

Sigurður fór fram á við Umferðarstofu sem fer með stjórnsýslu ökutækjaskrár að skráningu ökutækisins RT337 yrði breytt í samræmi við dóma Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 og reglugerð nr. 751/2003, en í þeim dómum tók Hæstiréttur efni svokallaðra bílasamninga/kaupleigusamninga umfram form og dæmdi að um væri að ræða lán en ekki leigu.

Sé tekið mið af þeim dómum má, að mati Eyglóar, ætla að SP fjármögnun hafi ekki verið aðili að kaupunum og hafi því ranglega verið skráður eigandi bifreiðarinnar. Jafnframt er það skilningur Sigurðar að bifreiðin sé ekki skráð í efnahagsreikning SP fjármögnunar, heldur aðeins krafan á Sigurð.

Þegar Sigurður fór fram á að skráning ökutækisins væri færð í samræmi við dóma Hæstaréttar, lög og reglugerð um skráningu ökutækja var því hafnað.

Bloggsíða Eyglóar Harðardóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert