Gjaldeyrishöft til 2013

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í dag lög um að gjaldeyrishöft gildi til ársloka 2013 en ekki til 2015 eins og áður stóð til. Jafnframt var m.a. fallið frá kröfum um skilaskyldu almennings á ferðamannagjaldeyri.

Helgi Hjörvar alþingismaður, sem flutti breytingartillögu um skemmri gildistíma, sagði að tekist hefði „gott þverpólitískt samstarf um úrbætur á málinu í meðförum þingsins“ og þakkaði það.

Bjarni Benediktsson alþingismaður, sagði með breytingatillögunni væri dregið mjög úr lögbundinni tímalengd haftanna. Hann sagði það vera mat Sjálfstæðismanna að þeir sem bæru ábyrgð á framkvæmd haftanna og afléttingu þeirra hafi ekki staðið sig við að flýta afnáminu.

Bjarni kvaðst þakka fyrir tilslakanir sem gerðar voru, m.a. að koma á fót þverpólitískum nefndum til að fara yfir helstu forsendur þess að hraða afléttingu haftanna. Það sé gríðarlega mikið hagsmunamál heimilanna og atvinnulífsins í landinu en málið í heild sinni sé vont.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert