Vill kanna bótarétt vegna hryðjuverkalaga

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í fréttum RÚV vilja athuga hvort hægt væri að sækja bætur vegna þess tjóns sem varð vegna beitingar hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum í Bretlandi í október 2008.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lagði í gær fram skýrslu á Alþingi skýrslu þar sem lagt er mat á tjónið vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Kom þar fram að beint tjón íslenskra fyrirtækja hefði verið á bilinu tveir til níu milljarðar króna og líklegasta gildið væri um 5,2 milljarðar. Þá benti flest til þess að óbeint tjón væri mun meira og líklegt að laskað orðspor íslensks efnahagslífs og þar með íslenskra fyrirtækja hefði haft langmest tjón í för með sér.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og 14 aðrir þingmenn óskuðu eftir skýrslunni. Bjarni sagði við RÚV, að rétt væri að fá lögfræðilega ráðgjöf um það til hvaða úrræða væri hægt að grípa. Þá væri skýrslan gagnleg ef til þess kæmi að Bretar hygðust  sækja eitthvað frekar á Íslendinga vegna Icesave-málsins.

Steingrímur J. Sigfússon sagði við RÚV ekki augljóst hvað af tjóninu mætti rekja beint til aðgerða breskra stjórnvalda og erfitt gæti orðið að tilgreina nákvæmlega skaðann og einangra þann hluta tjónsins sem varð vegna beitingar hryðjuverkalaganna sem slíkra.  Hins vegar gæfi skýrslan góða mynd af ástandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert