Misnotaði markaðsráðandi stöðu

Í tilboði Símans fólst að nýjum viðskiptavinum var boðinn frír …
Í tilboði Símans fólst að nýjum viðskiptavinum var boðinn frír 3G netlykill og frí áskrift að þjónustunni mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Síminn misnotaði markaðsráðandi stöðu sína með tilboðinu sem fyrirtækið gerði notendum sumarið 2009 í „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“.  Er Símanum gert að greiða 60 milljónir króna í stjórnvaldssekt, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Í umræddu tilboði Símans fólst að nýjum viðskiptavinum Símans í gagnaflutnings-þjónustu, þar sem 3G netlykill er notaður, var boðinn frír 3G netlykill og frí áskrift að þjónustunni í allt að þrjá mánuði gegn bindingu í viðskiptum í sex mánuði. Fjarskiptafyrirtækið Nova kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir tilboðinu. Tók Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun sumarið 2009  þar sem Símanum var bannað að bjóða umrætt tilboð.

Í endanlegri ákvörðun í febrúar sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði verið með markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Jafnframt er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi misnotað þá stöðu sína með undirverðlagningu í framangreindu tilboði. Í undirverðlagningu felst í aðalatriðum að markaðsráðandi fyrirtæki selur vöru eða þjónustu undir kostnaðarverði.

Háttsemi Símans fólst í aðgerðum sem ekki gátu talist til eðlilegrar samkeppni í skilningi samkeppnislaga og er Símanum gert að greiða 60 milljónir króna í stjórnvaldssekt, segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Markaðsráðandi fyrirtækjum er heimilt að mæta samkeppni af afli, með hliðsjón af hagrænum aðstæðum hverju sinni, og ná skyldur markaðsráðandi fyrirtækja ekki til þess að hlífa keppinautum á viðkomandi markaði sem ekki geta staðist eðlilega samkeppni. Markaðsráðandi fyrirtækjum er hins vegar óheimilt að grípa til aðgerða sem fela í sér undirverðlagningu.

Ef markaðsráðandi fyrirtæki mætir þannig samkeppni með verðlækkun sem ekki byggist  á rekstrarlegri frammistöðu getur það gert það að verkum að skilvirk fyrirtæki, sem hafa ekki nægilegan fjárhagsstyrk til þess að standa af sér slíkt verðstríð, hrökklist af markaðnum þannig að dragi úr samkeppni á honum. Jafnvel þótt neytendur njóti þess til skamms tíma að fá vöru eða þjónustu á mjög lágu verði getur óeðlileg verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis valdið alvarlegri röskun á samkeppni til lengra tíma litið og skaðað þannig hagsmuni neytenda.

Sjá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert