Áhugi víða fyrir nýju framboði

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is

„Þetta er mjög spennandi og það eru margir sem hafa áhuga,“ segir Guðmundur Steingrímsson, spurður um nýjan stjórnmálaflokk sem hann ætlar að stofna í samstarfi við Besta flokkinn. „Ég held að þetta muni leiða til betri pólitíkur, betra Íslands.“

Hvernig ganga viðræður?

Viðræður eru formlegt orð yfir það sem við erum að gera. Það sem er að eiga sér stað núna er að það eru margir að hittast og tala saman og smám saman er fólk að finna að það er að hugsa það sama. Ég og þau í Besta flokknum og fólk í kringum mig höfum komist að því að við erum að hugsa það sama.

Hverjir fleiri taka þátt í viðræðunum?

Þetta er ekki komið þannig að maður geti nefnt neitt fólk og það er heldur ekki mitt að nefna fólk eins og er. Svona verður að fá tíma til að verða til og þetta er mikilvægur tími í þessu, margir að tala við marga. Ég hef fundið áhuga víða af landinu frá framboðum sem voru ekki bundin flokkunum og það finnst mér mjög gleðilegt og spennandi. Það er einmitt það sem verður vonandi til, farvegur fólks sem finnst það ekki eiga heima í þessum hefðbundnu flokkum og upplifir flokkakerfið ekki í stakk búið til að sinna kröfum nútímans.

Hver yrðu helstu stefnumálin?

Við erum öll víðsýnt fólk, fylgjandi þessum lýðræðisumbótum sem er verið að tala um eins og stjórnlagaráði.  Ekkert okkar er á vegum sérhagsmuna, við erum að hugsa um almannahagsmuni og heiðarleika í pólitík og viljum stunda hann og viljum líka tala öðruvísi í pólitík. Þetta er friðarins fólk, fólk sem hefur mannúð og frið í hávegum, alþjóðlega sinnað held ég að megi segja og margt hvert Evrópusinnað. Með það mál er enginn kominn á þann stað að geta sagt að Ísland eigi óhikað að vera í Evrópusambandinu en við eigum það öll sammerkt að við viljum klára aðildarviðræður og gera það vel og leyfa þjóðinni síðan að ákveða.

Mér finnst það sjálfsögð og algjörlega ófrávíkjanlega krafa að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB þegar samningurinn liggur fyrir og mér hefur fundist ástæða til að mæla sterklega gegn þessum einstaklingum og hópum sem vilja hætta þessu ferli, finnst það forræðishyggja og glapræði á allan hátt.

Svo held ég að við séum öll umhverfissinnuð, ég hef talað mikið fyrir því að við eigum að byggja upp grænt hagkerfi á Íslandi. Ég held að græn atvinnustefna færi vel saman við frjálslynda atvinnustefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert