Samstöðufundur við bandaríska sendiráðið

Mahmoud Abbas forseti Palestínu hefur óskað eftir að Sameinuðu þjóðirnar …
Mahmoud Abbas forseti Palestínu hefur óskað eftir að Sameinuðu þjóðirnar viðurkenni ríki Palestínumanna. Reuters

Félagið Ísland-Palestína efnir í dag til samstöðufundar með sjálfstæðri Palestínu fyrir utan bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Fundurinn hefst kl. 17.00.

Í fréttatilkynningu segir að á morgun muni sendinefnd Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sem í dag gegnir stöðu áheyrnarfulltrúa, óska eftir því formlega að Palestína fái fulla aðild að samtökunum og verði þar viðurkennd sem sjálfstætt ríki. Um helgina verði síðan atkvæðagreiðsla meðal þjóða heims um hvort veita eigi Palestínu þessa aðild og viðurkenningu.

„Bandarísk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau muni beita neitunarvaldi innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir að Palestína fái þar fulla aðild og viðurkenningu sem sjálfstætt ríki. Þetta gengur þvert á yfirlýsingar bandarískra yfirvalda um að þau vilji styðja við mannréttindi og lýðræði í Mið-Austurlöndum, sem og orð Obama Bandaríkjaforseta um að hann vilji sjá sjálfstætt ríki Palestínu við hlið Ísraels. Í fyrra sagðist Obama vilja sjá sjálfstæða Palestínu í september 2011. Sá tími er núna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert