Brennisteinslykt við Múlakvísl

Enginn vöxtur var í Múlakvísl í morgun.
Enginn vöxtur var í Múlakvísl í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Mikil brennisteinslykt var af Múlakvísl sem rennur úr Mýrdalsjökli í morgun. Þetta segir Jónas Erlendsson, bóndi í Fagradal, en hann býr í um þriggja kílómetra fjarlægð frá ánni. Enginn vöxtur er hins vegar í ánni.

Allsnarpur jarðskjálfti, um 2,8 af stærð, varð í Mýrdalsjökli í morgun. Upptök skjálftans voru um 5 km austnorðaustur af Goðabungu. Það er talsvert norðan við sigkatlana sem vísindamenn sáu í sumar.

Jónas hefur fylgst vel með Múlakvísl á síðustu árum og hann segir að það komi fyrir að það finnist brennisteinslykt frá ánni, en það sé þó ekki algengt. Lyktin í morgun hafi verið mjög sterk og fundist vel á bæjarhlaðinu.

Sjálfvirkur vatnshæðarmælir Veðurstofunnar sýnir að engin breyting hefur orðið á vatnshæð í Múlakvísl í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert