Segir þingsetningartíma ekki hafa verið flýtt

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir í athugasemd á Facebook-síðu Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns, að þingsetningartímanum á laugardag hafi ekki verið flýtt heldur sé hún á þeim tíma, klukkan 10:30, sem þingfundir hafi verið haldnir ef þeir eru á laugardögum.

Birgitta hafði sagt á Facebook-síðu sinni, að hún voni að allir þingmenn muni fara út til fólksins til að fá að heyra af hverju það sjái sig knúið til að mótmæla. „Að flýta þingsetningu út af ótta yfirstjórnar þingsins við almenning er ekki boðlegt,“ segir Birgitta og tengir við frétt af mbl.is um tímasetningu þingsetningarinnar á laugardag.

Birgitta segir síðan frá því síðdegis, að hún hafi fengið athugasemd frá Ástu Ragnheiði um að fréttaflutningur Morgunblaðsins af þessu máli sé rangur. „Nú er það svo að þingsetningartímanum var ekki flýtt, heldur er hún á þeim tíma, kl. 10.30, sem þingfundir hafa verið haldnir ef þeir eru á laugardögum (sem er sem betur fer ekki oft) undanfarin ár, a.m.k. í minni tíð. Þessi ákvörðun var tekin í sumar þegar ljóst var að þingsetning, 1. okt. yrði á laugardegi, en þá ber að setja þingið skv. lögum. Þegar ég kynnti þetta síðar í forsætisnefnd var um tímasetninguna nokkur umræða og henni fagnað þar sem þingmenn sáu þá að þeir gætu átt helgina að einhverju leyti í kjördæmum eða með fjölskyldum sínum. Tímasetningunni hefur ekkert verið breytt síðan,“ segir Ásta Ragnheiður.  

Birgitta segir síðan á Facebook, að hún sé að vísa í eftirfarandi orð skrifstofustjóra þingsins á mbl.is þegar hún segi að það sé ekki boðlegt að flýta setningu þingsins vegna ótta yfirstjórnar þingsins við almenning: „Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir þetta ekki vera gert af ótta við mótmæli heldur eigi að gefa þingmönnum og starfsmönnum færi á að komast fyrr inn í helgina. „Auðvitað höfum við áhyggjur af því að ekki verði farið með friði og ég veit að þingforseti hefur af því miklar áhyggjur, enda var það mikið slys hvernig þetta fór í fyrra.“

Loks segir Birgitta að henni skiljist, að það sé hefð fyrir því að þingsetning byrji alltaf kl. 13:30.

Síðast bar 1. október upp á laugardag árið 2005 og þá var Alþingi sett klukkan 13:30.

Facebook-síða Birgittu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert